Dec02

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Blóðdropans 2025

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans voru kynntar við hátíðlega athöfn í Eddu, húsi Íslenskunnar þann 3. desember.

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki skáldverka:

Eiríkur Jónsson
Andrými: kviksögur
Útgefandi: Bjartur
Listilega skrifuð bók sem inniheldur frumlegar hugmyndir í einnar blaðsíðna kviksögum um fjölkynngi tilverunnar. Oft hverfast þær um sérkennilegar persónur og störf þeirra; til að mynda mann sem vinnur við að fallprófa lyftur og lækni sem sérhæfir sig í meðferð útdauðra sjúkdóma eins og sullaveiki. Tilvistarspekilegar vangaveltur spretta upp úr lögmálum raunvísindanna en nístandi kímni og lágstemmdur tregi binda sögurnar saman.
 
Sigrún Pálsdóttir
Blái pardusinn: hljóðbók
Útgefandi: Mál og menning
Stutt saga af öldruðum bókmenntafræðingi með brostna skáldkonudrauma, uppgjafar sagnfræðingi sem er markaðsstjóri sælgætisverksmiðju, og bókelskri flugfreyju sem á erfitt með að fóta sig á fullorðinssvellinu. Þau eiga það sameiginlegt að hlusta á dularfullu hljóðbókina Bláa pardusinn – af mismikilli athygli þó – um íslenska konu sem lendir í ævintýralegum hremmingum í seinni heimsstyrjöld og ku vera byggð á sannsögulegum atburðum. Hér er á ferðinni djörf formtilraun sem gengur upp í æsilegri atburðarás þar sem höfundur þenur mörkin milli sögulegra heimilda, skáldskapar og sannleika.
 
Þórdís Helgadóttir
Lausaletur
Útgefandi: Mál og menning 
Marglaga skáldsaga á mörkum hins óþekkta þar sem dularfullur faraldur hefur gripið um sig á meðan prentsafnið opnar enn á slaginu níu, sama hvað á dynur. Starfsfólk safnsins tekst á við hversdagsleikann sem smám saman snýst upp  í andhverfu sína þegar undirliggjandi framandleikinn læðist upp á yfirborðið eins og kötturinn sem spígsporar um safnið. Frásögn sem einkennist af næmni og listilega fléttuðum lýsingum ástands þar sem við getum aldrei verið viss og flest getur brugðist, jafnvel minnið.
 
Haukur Már Helgason
Staðreyndirnar
Útgefandi: Mál og menning
Í heimspekilegri háskerpu framkallar höfundur margbrotna mynd af hverfulleika staðreyndarinnar í upplýsingaóreiðu samtímans. Undirgefni þjóðar við valdhafa kemur berlega í ljós þegar ráðherra setur á fót Upplýsingastofu og ræður smánaðan fyrrum aðstoðarmann ráðherra sem skrifstofustjóra staðreyndagrunns. Haukur Már Helgason kafar hér ofan í óþægilegustu fortíð Íslendinga og veltir okkur upp úr henni með aðstoð hamstola vitlíkisvélar.
 
Jón Kalman Stefánsson
Þyngsta frumefnið
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa
Ægifalleg ljóðabók sem lesandi getur nálgast eins og gamlan vin þar sem flakkað er áreynslulaust milli hins háfleyga og hversdagslega. Guð býr nefnilega ekki bara í eilífðinni, heldur líka girðingunni, kaffinu, gæskunni, uppvaskinu, kynlífinu og ekki síst Ikea-sexkantinum. Sorgin er alltumlykjandi þyngsta frumefnið og ljóðmælandi þá eins konar Sísýfos söknuðarins; hífir sokknar sólir úr hafi að morgni og rúllar harminum á undan sér upp stórgrýtta fjallshlíð mannlegrar tilvistar.
 
Dómnefnd skipuðu:
Davíð Roach Gunnarsson, formaður dómnefndar, Guðrún Garðarsdóttir og Gyða Sigfinnsdóttir.
 
 
Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:
 
Kristín Svava Tómasdóttir
Fröken Dúlla: Ævisaga
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa
Höfundur hefur unnið þrekvirki með því að skrásetja ævisögu Jóhönnu Knudsen (Dúllu). Yfirheyrslum og rannsóknum Jóhönnu á ástandsstúlkum hefur verið lýst sem umfangsmestu persónunjósnum Íslandssögunnar. Dómur sögunnar hefur því óneitanlega verið henni óhagstæður á síðari árum og í því felst mikil áskorun fyrir ævisagnaritara. Í verkinu er áleitnum spurningum svarað af festu og yfirvegun. Bókin byggir á styrkum fræðilegum grunni en frásögnin er lipur, áhugaverð og spennandi.
 
Chanel Björk Sturludóttir, Elinóra Guðmundsdóttir og Elínborg Kolbeinsdóttir
Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi
Útgefandi: Vía útgáfa
Ákaflega metnaðarfullt og mikilvægt verk sem miðlar fjölbreyttum sögum kvenna á Íslandi sem hafa oftar en ekki átt takmarkaða rödd í opinberri umræðu. Ritstjórar hafa með mikilli næmni og virðingu fyrir viðfangsefninu safnað saman ólíkum röddum og sjónarhornum kvenna sem eiga það sameiginlegt að vera af erlendu bergi brotnar, en hafa um leið auðgað íslenskt þjóðlíf svo um munar, hver á sinn hátt. Bókin er bæði skrifuð á íslensku og ensku, hana prýða fallegar ljósmyndir og það tekst afbragðs vel að kynna lesendur fyrir konunum sem deila sögum sínum.
 
Davíð Ólafsson og Arndís S. Árnadóttir
Mynd & hand: Skólasaga 1939–1999
Útgefandi: Sögufélag
Í bókinni er fjallað með vönduðum og áhugaverðum hætti um 60 ára sögu Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Þar er dregin upp ljóslifandi mynd af mikilvægu hlutverki skólans sem var í senn kennaraskóli, listiðna-, hönnunar- og myndlistaskóli. Lifandi frásagnarhátturinn varpar skýru ljósi á söguna en bókin er einnig ríkulega myndskreytt og fangar þannig andrúmsloftið í Mynd&hand. Fallegt og fróðlegt verk sem undirstrikar ómissandi þátt skólans í menningarsögu Íslands.
 
Gunnar V. Andrésson og Sigmundur Ernir Rúnarsson
Spegill þjóðar: Fréttamyndir í fimmtíu ár og sagan á bak við þær
Útgefandi: Mál og menning
Ákaflega vandað og tímabært verk sem hefur að geyma margar af kunnustu fréttaljósmyndum Gunnars V. Andréssonar. Myndirnar spanna hálfrar aldar farsælan feril Gunnars. . Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur skráð sögurnar, á bak við myndirnar á lifandi hátt, sem gefa þeim samhengi og aukna dýpt. Bókin er áferðarfalleg og skemmtileg. Hún er á sama tíma mikilvægt innlegg í sögu þjóðarinnar og fjölmiðla á Íslandi, enda er þar að finna á annað hundrað myndir af augnablikum sem greypt eru í þjóðarsálina.
 
Sigrún Alba Sigurðardóttir
Þegar mamma mín dó
Útgefandi: Mál og menning
Einstakt verk sem fjallar um reynslu höfundar af því að fylgja móður sinni síðasta spölinn. Um er að ræða einlæga og opinskáa lýsingu á þeim sterku tilfinningum sem kvikna í tengslum við dauðann og það að kveðja; bæði ást og umhyggju en einnig líðan á borð við samviskubit og vanmátt. Bókin á brýnt erindi við samtímann. Fjallað er um þær aðstæður sem samfélagið hefur búið dauðvona fólki og ekki síst álagið og ábyrgðina sem aðstandendur þurfa að takast á við á óumflýjanlegum tímamótum.
 
Dómnefnd skipuðu:
Björn Teitsson, Dagrún Ósk Jónsdóttir, formaður dómnefndar og Magnús Lyngdal Magnússon

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki barna- og ungmennabóka: 

Birna Daníelsdóttir
Ég bý í risalandi
Útgefandi: Vaka Helgafell
Hugljúf, falleg og einlæg frásögn þar sem höfundur leikur sér með form, liti og sjónarhorn. Verkið er fagurlega myndskreytt saga frá sjónarhorni barns sem lætur ekkert stoppa sig.
 
Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir
Rækjuvík: Saga um dularfull skeyti og stuð
Útgefandi: Salka
Fyndin og ómótstæðilega falleg hversdagssaga með skrautlegum, hlýjum og eftirminnilegum persónum. Lesendur eiga vafalaust eftir að njóta sögunnar en einnig vönduðum frágangi bókarinnar, sem býður upp á áframhaldandi skemmtun jafnvel eftir að lestri lýkur.
 
Sesselía Ólafs
Silfurberg
Útgefandi: Bókabeitan
Frumleg og skemmtileg saga úr heimi íslenskra ævintýra og þjóðsagna. Áhugaverðar og ólíkar persónur vinna saman í baráttu góðs við illt og úr verður hörkuspennandi saga sem hentar breiðum aldurshóp.
 
Ævar Þór Benediktsson og Elín Elísabet Einarsdóttir myndhöfundur
Skólastjórinn
Útgefandi: Mál og menning
Lífleg saga sem sameinar húmor, spennu og þroskasögu grunnskólanema í krefjandi en oft bráðfyndnum aðstæðum. Mikið fjör og stuð er í sögunni sem hvetur lesendur áfram á næstu síðu.
 
Arndís Þórarinsdóttir
Sólgos
Útgefandi: Mál og menning
Áhrifarík og spennandi hamfarasaga þar sem lesendur fá að fylgjast með áhugaverðum sögupersónum í ógnvekjandi og spennandi aðstæðum. Höfundi tekst vel að skapa trúverðuga mynd af breyttu samfélagi og fangar athygli lesenda sem hann sleppur ekki fyrr en löngu eftir að lestri lýkur.
 
Dómnefnd skipuðu:
Andri Már Sigurðsson, formaður dómnefndar, Gunnur Vilborg Guðjónsdóttir og Karitas Mörtudóttir Bjarkadóttir.
 
 

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans:

Lilja Sigurðardóttir
Alfa
Útgefandi: Mál og menning
Áhugaverð og þéttofin glæpa- og framtíðarsaga, vel úthugsuð og grípandi.  Fléttan er krefjandi með góðri persónusköpun og stíganda sem heldur lesandanum við efnið.
 
Eva Björg Ægisdóttir
Allar litlu lygarnar
Útgefandi: Veröld
Heillandi bók sem grípur lesandann frá fyrstu síðu með spennandi framvindu. Blekkingar sögunnar eru ögrandi og lesandinn veit stundum ekki hvaðan á hann stendur veðrið. Sannfærandi persónusköpun og góð flétta sem kemur stöðugt á óvart.
 
Anna Rún Frímannsdóttir
Eftirför
Útgefandi: Salka
Trúverðug og raunsönn lýsing á einelti unglinga og átakanlegum afleiðingum þess með góðri persónusköpun og lifandi frásagnarmáta.  Spennandi og vel uppbyggð saga sem heldur lesandanum vel við efnið.
Reynir Finndal Grétarsson
Líf
Útgefandi: Sögur útgáfa
Átakamikil og hröð frásögn með flókinni fléttu og óhugnanlegu ívafi. Sagan dýpkar eftir því sem á líður og persónur sýna sitt rétta andlit. Kraftmikil og ögrandi.
 
Margrét S. Höskuldsdóttir
Lokar augum blám
Útgefandi: Vaka Helgafell
Skemmtilegur stíll og  sannfærandi persónur drífa áfram áhugaverða sögu sem heldur spennunni út í gegn. Sögusvið og aðstæður eru ljóslifandi og lesandinn hrífst með upplifun og hugsunum persónanna.
 
Dómnefnd skipuðu:
Ásrún Matthíasdóttir, formaður dómnefndar, Brynhildur Björnsdóttir og Ómar Valdimarsson.
Oct30

Teiknikeppni - Myndir fyrir bókelska þjóð

Myndir fyrir bókelska þjóð er yfirskrift teiknisamkeppni sem Morgunblaðið og Félag íslenskra bókaútgefenda standa fyrir í nóvember, en þema keppninnar er myndræn túlkun jólabókaflóðsins. Frestur til að skila inn myndum er til og með 25. nóvember.

Tekið er við myndum á skráningaformi með því að smella hér.

 

Oct23

Bókahátíðin í Hörpu 15.-16. nóvember 2025

Meðal dagskrárliða á Bókahátíð í Hörpu 2025:

  • Menningarmálaráðherra Íslands, Logi Már Einarsson setur hátíðina kl. 11.30 á laugardag og lúðrasveit kemur öllum í gott skap.
  • Upplestur á Norðurbryggju kl. 12-17 báða daga. 70 höfundar lesa úr nýjum jólabókum.
  • Barnadagskrá: 40 höfundar lesa úr nýjum barnabókum.
  • Bókmenntadagskrá Menningardeildar Morgunblaðsins : þétt dagskrá á sunnudegi frá kl. 13-17.
  • Tilnefningar til Íslensku bókahönnunarverðlaunanna kl. 13 á laugardag.
  • Hinsegin dagskrárliður frá bókmenntahátíðinni Queer Situations kl. 14.30 á laugardag.
  • Gestahöfundur hátíðarinnar er írska skáldkonan Sheila Armstrong sem fyrr á árinu hlaut sérstaka viðurkenningu Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins fyrir bók sína, Falling Animals.
  • Ungmennabókadagskrá kl. 16 á laugardag.

Útgefendum sem hafa áhuga á þátttöku er bent á að hafa samband á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Oct01

Lokaskil í prentútgáfu Bókatíðinda 5. október

Lokaskil í prentútgáfu Bókatíðinda 5. október

Við minnum útgefendur á að sunnudagurinn 5. október er síðasti skráningadagur bóka í prentútgáfu Bókatíðinda. Allar nýjar bækur sem út hafa komið á líðandi ári eru gjaldgengar. Verð pr. kynningu er kr. 16.120 fyrir birtingu á vef og kr. 26.040 fyrir birtingu í prentútgáfu, samtals kr. 42.160 fyrir birtingu í báðum miðlum. Öll verð með vsk.

Vinsamlegast sendið upplýsingar um nafn útgáfu, kennitölu greiðanda og símanúmer á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. til þess að fá aðgengi að skráningagrunni Bókatíðinda.

Í vefútgáfunni gefst kostur á að birta hlekk sem vísar á sölusíður, birta síður eða hljóðbrot úr bók og bæta við tilvitnunum og dómum eftir því sem þeir berast. Hægt er að skrá bækur til birtingar á vefútgáfunni árið um kring og gera endalausar breytingar sem uppfærast jafnhraðan.

Oct01
Aug18

Öldutoppar jólabókaflóðsins

Bókatíðindi, Bókahátíðin í Hörpu og bókmenntaverðlaun

Öldutoppar jólabókaflóðsins

Félag íslenskra bókaútgefenda stendur að útgáfu Bókatíðinda, Íslensku bókmenntaverðlaununum, Blóðdropanum, íslensku glæpasagnaverðlaununum og Bókahátíðinni í Hörpu. Öllum útgefendum nýrra íslenskra bóka býðst að taka þátt, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki.

Bókatíðindi

Bókatíðindi eru birt bæði á vef og í prentaðri útgáfu. Allar nýjar bækur sem út hafa komið á líðandi ári eru gjaldgengar. Verð pr. kynningu eru kr. 16.120 fyrir birtingu á vef og kr. 26.040 fyrir birtingu í prentútgáfu, samtals kr. 42.160 fyrir birtingu í báðum miðlum. Öll verð með vsk.

Frestur til að skrá bækur í prentútgáfuna er til og með 5. október. Prentútgáfunni er dreift landið um kring í 42.000 eintökum um miðjan nóvember og er mörgum ómissandi við skipulagningu jólagjafainnkaupa og óskalista.

Í vefútgáfunni gefst kostur á að birta hlekk sem vísar á sölusíður, birta síður eða hljóðbrot úr bók og bæta við tilvitnunum og dómum eftir því sem þeir berast. Hægt er að skrá bækur til birtingar á vefútgáfunni árið um kring og gera endalausar breytingar sem uppfærast jafnhraðan.

Vinsamlegast sendið upplýsingar um nafn útgáfu, kennitölu greiðanda og símanúmer á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. til þess að fá aðgengi að skráningagrunni Bókatíðinda.

Bókahátíðin í Hörpu

Bókahátíðin í Hörpu verður að þessu sinni haldin dagana 15.-16. nóvember frá kl. 12-17. Útgefendum bóka sem gefnar eru út á árinu gefst kostur á að leigja tilbúna standa til að kynna bækur sínar. Einfaldur standur með afgreiðsluborði og stól kostar kr. 74.400 með vsk. Lokafrestur til skráningar er 10. nóvember. Sjá nánari upplýsingar efst í skráningaforminu hér: Bókahátíð - skráning

Íslensku bókmenntaverðlaunin og Blóðdropinn

Öllum útgefendum prentaðra bóka í almennri dreifingu gefst kostur á að leggja bækur sínar fram til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og eða til Blóðdropans, íslensku glæpasagnaverðlaunanna að því gefnu að verkið uppfylli þau skilyrði sem kveðið er á um í verðlauna- og starfsreglum

Gjald er innheimt fyrir framlagningu bóka og hækkar það eftir því sem nær dregur skilafresti. Þetta er gert með það fyrir augum að dómnefnd fá sem hæst hlutfall bóka strax í september og hafi þannig ásættanlegan tíma til að fara yfir verkin. Nánari upplýsingar má finna hér í skráning framlagðra verka

Aug14

Bókamarkaðurinn á Akureyri

Furuvöllum 5

Bókamarkaðurinn hefur fundið sér nýjan samastað á Akureyri að Furuvöllum 5.

Opið alla daga frá kl. 10-18 dagana 26. ágúst til 13. september.

Apr25

Vilt þú starfa í dómnefnd?

Félag íslenskra bókaútgefenda óskar eftir dómnefndarfólki fyrir Íslensku bókmenntaverðlaunin og glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann. Leitað er eftir fullorðnu fólki á öllum aldri með góða menntun, fjölbreyttan bakgrunn og brennandi áhuga á íslenskum bókmenntum. Umsækjendur geta valið á milli fjögurra dómnefnda: barnabóka, fræðirita, skáldverka og glæpasagna.

Mikilvægt er að umsækjendur hafi rúman tíma til lesturs og aðstöðu til þess að lesa bækur á rafrænu formi. Reikna má með að hverri nefnd berist á bilinu 20-60 bækur. Auk þóknunar fá nefndarmenn allar framlagðar bækur í sínum flokki til eignar. Starfstímabil nefndanna er frá 1. september til 1. desember 2025. 

Tekið er á móti umsóknarskráningum til og með 1. ágúst 2025.

Hlekkur á umsóknaskráningu

Jan29

Íslensku bókmenntaverðlaunin og Blóðdropinn 2024

Afhent á Bessastöðum 29. janúar 2025

Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, afhenti í dag, miðvikudaginn 29. janúar, Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum og í beinni útsendingu á RÚV.

Verðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Blængur, verðlaunagripurinn sem er blásvartur hrafn steyptur í kopar, eftir myndlistarmanninn Matthías Rúnar Siguðrsson, var afhentur verðlaunahöfum Íslensku bókmenntaverðlaunanna í annað sinn.

Blóðdropann hlaut að þessu sinni:
Stefán Máni
Dauðinn einn var vitni
Útgefandi: Sögur útgáfa
 
Umsögn lokadómnefndar:

Hér er á ferðinni háspennuævintýri þar sem lögreglan tekst á við yfirvofandi ógn sem steðjar að lífi íbúa Reykjavíkur í kappi við tímann. Atburðarásin er hröð og spennandi og nær niðurtalningin sem sagan hverfist um sterkum tökum á lesandanum. Um leið heldur höfundur áfram að þróa litríka persónu og innri togstreitu hins breyska lögreglumanns Harðar Grímssonar á sannfærandi hátt. Persónulýsingar eru lifandi og marghliða og andrúmsloft ótta og hryllings hratt og örugglega byggt upp, en um leið er gætt að húmor og fínni blæbrigðum mannlífsins. Textinn er myndríkur og sögusviðið og atburðarásin teiknast ljóslifandi upp í huga lesanda.

 
Íslensku bókmenntaverðlaunin skiptast  í þrjá flokka og þeir sem að þessu sinni hlutu verðlaunin voru:
 
Barna- og ungmennabækur:
Rán Flygenring
Tjörnin
Útgefandi: Angústúra
 
Umsögn lokadómnefndar:

Tjörnin er marglaga saga um undraveröld mitt í hversdegi barna sem finna uppþornaða tjörn í garðinum sínum, sem síðan fyllist lífi. Bókin hentar börnum á öllum aldri jafnt sem fullorðnum og er endalaus uppspretta samtala og nýrra uppgötvanna, alveg eins og sjálf tjörnin. Komið er inn á margvísleg viðfangsefni, svo sem vináttu, eignarrétt, stjórn, samvinnu og jafnvel auðlindanýtingu, en allt undir formerkjum ævintýrisins og leiksins. Ímyndunaraflið ræður för í fjörlegum myndum og vinna þær og textinn vel saman auk þess sem einstakur myndheimur Ránar bætir miklu við texta sögunnar. Tjörnin er fallegt og skemmtilegt verk sem lesandinn getur sökkt sér í og sagan dýpkar með hverjum lestri.

 
Fræðibækur og rit almenns efnis:
Guðjón Friðriksson
Börn í Reykjavík
Útgefandi: Mál og menning
 
Umsögn lokadómnefndar:

Börn í Reykjavík er yfirgripsmikið og fróðlegt verk um sögu barna í höfuðborginni allt frá þéttbýlismyndun til dagsins í dag. Stíllinn er leikandi léttur og skrifað er af nærfærni og næmni um málefni barna og fjölskyldna, aðbúnað þeirra og umhverfi og textinn dýpkaður með persónulegum sögum. Höfundur dregur einnig fram daglegt líf barna á tímabilinu – leikina, skemmtanirnar, skólamál og skyldurnar – og tengir þetta við þróun og breytingar í borgarsamfélaginu sem var að mótast. Sá fjöldi mynda sem prýðir bókina eykur heimildargildi hennar til muna og með þeim og lifandi frásagnarstílnum tekst Guðjóni að vekja söguna til lífs og draga upp skýra mynd af þróun samfélagsins og áhrifum hennar á börnin. Börn í Reykjavík er tímamótaverk sem er líklegt til að ná til breiðs lesendahóps og auka skilning á stöðu og veruleika barna í nútíð og þátíð.

 
Skáldverk:
Kristín Ómarsdóttir
Móðurást: Draumþing
Útgefandi: Mál og menning
 
Umsögn lokadómnefndar:

Móðurást: Draumþing, skálduð ævisaga langömmu Kristínar, er fallega stíluð saga liðinna kynslóða á ofanverðri nítjándu öld. Framsetningin er brotakennd og ljóðræn og sýnir nýstárlega nálgun við ritun sögulegrar skáldsögu. Höfundi tekst listilega að skapa sögusvið sem er í senn framandi og kunnuglegt, einangrað og opið og veita innsýn í brothætt sálarlíf unglingsstúlku sem stendur á þröskuldi fullorðinsára og nýrra kennda, bundin af öllum þeim væntingum og takmörkunum sem samfélag hennar býr henni. Jónsmessunóttin, sem rammar frásögnina inn, leggur yfir hana blæ töfra og annarleika sem samræmist einkar vel hálfsögðum sögum og því sem liggur á milli lína.

Nov26

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Blóðdropans 2024

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans voru kynntar við hátíðlega athöfn í Eddu, húsi Íslenskunnar þann 27. nóvember.

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki skáldverka:

Arnaldur Indriðason
Ferðalok
Útgefandi: Vaka Helgafell
Einstaklega vel unnin söguleg skáldsaga sem dregur upp nýja og ferska sýn af skáldinu kunna. Saman við ljóð Jónasar og síðustu daga fléttast minningabrot úr fortíð hans í meistaralega vel skrifuðum texta. Léttur og fljótandi stíll málar upp mynd sem lætur engan ósnortinn.
 
Jón Kalman Stefánsson
Himintungl yfir heimsins ystu brún
Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa
Sagt frá magnþrungnum atburðum í sögu þjóðarinnar í upphafi 17. aldar með nýjum hætti og þeir túlkaðir með hliðsjón af hugmyndum vísindamanna þess tíma um heiminn. Lifandi og frumleg persónusköpun byggir á þekktum sögulegum persónum. Leiftrandi frásagnargleði með öguðum en liprum texta og sterkum skírskotunum til samtímans.
 
Gerður Kristný
Jarðljós
Útgefandi: Mál og menning 
Áleitin ljóð sem fjalla um mannleg örlög í nútíð og fortíð þar sem grimm alvara og lævís kímni vegast á. Í kaldhömruðum textanum er hljómgaldur og taktur tungunnar nýttur til fulls og meitlað myndmál túlkar heitar tilfinningar.
 
Birgitta Björg Guðmarsdóttir
Moldin heit
Útgefandi: Drápa
Með léttum og hrífandi ritma er lesendum boðið upp í dans. Smám saman brýst út tilfinningaþrungin frásögn í listilega uppbyggðri skáldsögu. Listrænn en jafnframt aðgengilegur texti sem ætti að höfða til allra.
 
Kristín Ómarsdóttir
Móðurást: Draumþing
Útgefandi: Mál og menning
Sögulegur frásagnagaldur sem hverfist um unga stúlku sem verður að konu á sumarsólstöðum. Nýstárlegur og óvenjulegur frásagnarstíll. Hrífandi fíngerður og ljóðrænn glitvefur ofinn af meistara höndum.
 
Dómnefnd skipuðu:
Gunnlaugur Ástgeirsson, Kris Gunnars og Viðar Eggertsson sem jafnframt var formaður dómnefndar.
 
 
Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:
 
Guðjón Friðriksson
Börn í Reykjavík
Útgefandi: Mál og menning
Vandað og tímabært verk sem veitir innsýn í hvernig þróun samfélagsins hafði áhrif á aðbúnað, menntun og lífshætti barna og hvernig  þau öðluðust nýja stöðu sem fullgildir þjóðfélagsþegnar í gegnum þessar breytingar. Höfundur setur umfangsmikið verk fram á fróðlegan og skemmtilegan hátt, þar sem umhyggja gagnvart viðfangsefninu skín víða í gegn. Fallegar myndir bókarinnar gefa aukin hughrif og gera bókina aðgengilega fyrir alla aldurshópa.
 
Ingibjörg Björnsdóttir
Listdans á Íslandi
Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag
Glæsilegt og áhugavert verk þar sem  höfundur miðlar af mikilli þekkingu og innsýn sögu þessarar fallegu og mikilvægu listgreinar á Íslandi, allt frá upphafi hennar. Þróun hennar í áranna rás er lýst og hvernig henni óx ásmegin fyrir  tilverknað þeirra sem ruddu brautina af framsýni, þrautseigju, listrænum metnaði og hugrekki.
 
Anna Dröfn Ágústsdóttir
Óli K.
Útgefandi: Angústúra
Glæsilegt verk um einn helsta frumkvöðul í þróun fjölmiðla á Íslandi. Ljósmyndir Óla K. voru áhrifamiklar og spegluðu samtímann, með bæði næmni listamannsins og nákvæmni fréttamannsins. Heimildavinna og texti höfundar gefa myndunum aukið vægi og setja sögu Íslands á 20. öld, hversdagslífs jafnt sem stórviðburða, í mikilvægt samhengi. Verkið undirstrikar vægi ljósmynda í söguvitund okkar, þegar þær eru oftar en ekki samofnar hugmyndum okkar og skynjun um lífið og tilveruna á öldinni sem Ísland óx úr grasi.
 
Þórir Óskarsson
Svipur brotanna - Líf og list Bjarna Thorarensen
Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag
Vel unnið og áferðarfallegt verk þar sem feikilegur fróðleikur er dreginn saman og settur fram á skýran og áhugaverðan hátt um þetta margslungna höfuðskáld  okkar Íslendinga  sem að mörgu leyti var á undan sinni samtíð. Verkið gefur einstaka sýn inn í líf hans og skoðanir og víðfeðm áhrif hans á mörgum sviðum þjóðfélagsins og gefur góðan vitnisburð um pólitískan og bókmenntalegan hugsunarhátt öndverðrar 19. aldar.
 
Árni Heimir Ingólfsson
Tónar útlaganna - Þrír landflótta tónlistarmenn sem mótuðu íslenskt menningarlíf
Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag
Einstakt verk um einstaka listamenn, sem lögðu öðrum fremur grunninn að því tónlistarlífi sem við njótum í dag á Íslandi. Ástríða höfundar fyrir viðfangsefninu er áþreifanleg, sem mikil og metnaðarfull heimildavinna ber vitni um. Verk sem á stöðugt erindi við okkur sem menningarþjóð og um leið áminning um mikilvægi og ávinning þess að taka vel á móti fólki sem þarf á aðstoð að halda.
 
Dómnefnd skipuðu:
Björn Teitsson, formaður dómnefndar, Kristín Ýr Pétursdóttir og Þorvaldur Sigurðsson.

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki barna- og ungmennabóka:
 
Hildur Knútsdóttir
Kasia og Magdalena
Útgefandi: JPV útgáfa
Sterk og hrífandi ástarsaga þar sem ungmenni takast á við erfiðar heimilisaðstæður sem fléttast saman við raunveruleika sem getur verið bæði flókinn og hættulegur.
 
Embla Bachmann og Blær Guðmundsdóttir, myndhöfundur
Kærókeppnin
Útgefandi: Bókabeitan
Hröð og spennandi saga full af fjöri og húmor sem fjallar um spaugilegar hliðar samkeppninar um fyrsta sambandið og hversu mikilvæg vináttan er.
 
Sigrún Eldjárn
Sigrún í safninu
Útgefandi: Mál og menning
Fróðlegt og forvitnilegt ferðalag um Þjóðminjasafn Íslands, séð með augum barns um æskustöðvar sem eiga sér engan líka. Lesandinn fær innsýn í lífið á safninu og í gegnum einstakar myndir og texta lifnar það við og vekur áhuga ungra lesenda á íslenskri sögu og menningu.
 
Rán Flygernring
Tjörnin
Útgefandi: Angústúra
Hugljúf og lærdómsrík saga sem snertir á málefnum eins og vináttu, samvinnu og umhverfi og hvað getur gerst þegar eitthvað fer úrskeiðis eða ekki verður lengur ráðið við aðstæður. Hinn einstaki myndheimur bókarinnar styrkir söguna og á stundum tala myndirnar sínu máli og gera texta óþarfan.
 
Sævar Helgi Bragason og Elías Rúni, myndhöfundur
Vísindalæsi 5 - Kúkur, piss og prump
Útgefandi: JPV útgáfa
Fræðandi og skemmtileg bók um viðfangsefni sem við þekkjum öll en lítið er rætt um. Höfundi tekst með hnittnum og hispurslausum hætti að fræða lesandann um kunnugleg en viðkvæm málefni án þess að það verði vandræðalegt eða leiðinlegt auk þess að koma fram með áhugaverðan og oft skrítinn fróðleik.
 
Dómnefnd skipuðu:
Einar Eysteinsson, Kristín Ásta Ólafsdóttir, formaður dómnefndar og Sigríður Wöhler.
 
Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans:
 
Óskar Guðmundsson
Brúðumeistarinn
Útgefandi: Storytel
Vel uppbyggð saga þar sem atburðir úr fortíðinni varpa dökkum skugga á nútímann. Sögufléttan er snjöll og framvindan traust, þar sem hver vendipunktur styrkir heildina. Spennan er óslitin allt til loka, og höfundi tekst listilega að viðhalda leyndardómnum sem heldur lesandanum í heljargreipum.
 
Stefán Máni
Dauðinn einn var vitni
Útgefandi: Sögur útgáfa
Lögreglumaðurinn Hörður Grímsson stendur frammi fyrir óljósri en ógnandi hótun í hrífandi glæpasögu sem þróast í óvænta spennu með hasar og hraðri framvindu. Frásagnarstíllinn er sjónrænn og áhrifaríkur, með vel útfærðri sögufléttu sem heldur lesandanum föstum í spennu allt til loka.
 
Eva Björg Ægisdóttir
Kvöldið sem hún hvarf
Útgefandi: Veröld
Spennandi bók þar sem lögreglukonan Elma tekst á við flókið og marglaga sakamál. Glæpasagan fangar lesandann með vel útfærðri ráðgátu og djúpri persónusköpun sem dregur fram mannlega þætti í hörðum aðstæðum. Höfundurinn lýsir heimi sem er þrunginn óvissu og spennu, þar sem óvæntir vendipunktar halda lesandanum á tánum frá fyrstu síðu til hinnar síðustu.
 
Ragnheiður Gestsdóttir
Týndur
Útgefandi: Björt bókaútgáfa
Vel heppnuð og spennandi saga um lítinn dreng sem lifir í heimi ofbeldis í Reykjavík. Höfundi tekst vel að lýsa ógnandi umhverfi en þar leynist einnig góðvild og manngæska. Rannsókn lögreglukonunnar Hönnu Maríu er leidd áfram af næmi og skarpskyggni, og spennan helst óslitin allt til síðustu blaðsíðu.
 
Steindór Ívarsson
Völundur
Útgefandi: Storytel og Sögur Útgáfa
Áhugaverð og spennandi frásögn af óhugnanlegum atburðum sem gerast um miðja síðustu öld en enduróma inn í samtímann. Höfundur dregur fram sálarangist útskúfaðra og tengir nútímaviðburði á listilegan hátt við myrk illvirki fortíðarinnar, í áhrifaríkri og hugvitsamlega uppbyggðri sögu sem heldur lesandanum hugföngnum til enda.
 
Dómnefnd skipuðu:
Ásrún Matthíasdóttir, Mjöll Snæsdóttir og Unnar Geir Unnarsson, formaður dómnefndar.
Nov16

Bókatíðindi - dreifing um land allt

Prentaða útgáfu Bókatíðinda má nálgast frá 20.-30. nóvember á eftirfarandi stöðum:
Höfuðborgarsvæðið:
Penninn Eymundsson – allar verslanir
A4 – allar verslanir
Bókakaffi Ármúla
Bóksala stúdenta
Bræðurnir Eyjólfsson, Hjartagarðinum v. Laugaveg
Forlagsversluninni Fiskislóð
Hagkaup Garðabæ, Kringlu, Skeifu, Spöng, Smáralind og Seltjarnarnesi
Hugsel, Grafarvogi
Nexus Glæsibæ
Nettó Granda, Miðvangi, Mjódd og Selhellu
Iðnú Brautarholti
Salka bókabúð, Hverfisgötu
Nettó Granda, Miðvangi, Mjódd og Selhellu
 
Einnig í eftirfarandi bókasöfnum á höfuðborgarsvæðinu:
Bókasafn Mosfellsbæjar, Þverholti 2
Bókasafn Seltjarnarness, Eiðistorg 11 - 2. hæð.
Bókasafn Garðabæjar, Garðatorgi 7
Bókasafn Mosfellsbæjar, Þverholti 2
Bóksafn Hafnarfjarðar, Strandgötu 1
Borgarbókasafn, Tryggvagötu
 
Landsbyggðin – í röð eftir póstnúmerum
Penninn Eymundsson – allar verslanir
A4 – allar verslanir
260 - Nettó, Krossmóa 4 260 Reykjanesbæ
310 - Héraðsbókasafn Borgafjarðar
310 - Nettó, Borgarbraut 58-60 Borgarnesi
340 - Bókaversluna Breiðafjarðar Stykkishólmi
350 - Græna Kompaníið Grundarfirði
355 - Bókabúðin Hrund, Ólafsbraut 55 355 Ólafsvík
370 - Héraðsbókasafið, Miðbraut 11,  370 Búðardalur
415 - Verskun Bjarna Eiríkssonar Bolungarvík
450 - Bókasafn Vesturbyggðar, Aðalstræti 53, 450 Patreksfjörður
460 - Tálknafjarðarhreppur, Strandgötu 38 460 Táknafjörður
530 - Kaupf.Vestur Húnvetninga Strandgötu 1  530 Hvammstanga
530 - Bókasafn Húnaþings v. Höfðabraut 6, 530 Hvammstangi
545 - Sandra Óm, Suðurvegur 13,  545 Skagaströnd
550 - Kaupfélag Skagfirðinga, Sauðárkróki
580 - Bókasafn ,  Gránugötu 24, 580 Fjallabyggð
600 - Nettó, Glerártorgi, 600 Akureyri
600 - Hagkaup, Furuvöllum 17 600 Akureyri
600 - Amtsbókasafnið, Brekkugötu 17, 600 Akureyri
603 - Síðuskóli,  Bugðusíða,  603 Akureyri
620 - Bókasafn Dalvíkurbyggðar, Boðabraut Berg menningarhús, 620 Dalvík
625 - Tunnan Prentþjónusta, Múlavegur 4 625 Ólafsfjörður
690 - Kauptún, Hafnarbyggð 4, 690 Vopnafirði
700 - Nettó, Kaupvangi 6 Egilsstaðir
700 - Bókasafn Hérðasbúa, Egilsstöðum
710 - Bókasafn Seyðisfjarðar, 710 Seyðisfjörður
730 - Bókasafn Reyðarfjarðar, Heiðarvegi 17 730 Reyðarfjörður
735 - Bókabúðin Eskja, Eksifirði
735 - Bókasafnið,  Lambeyrarbraut 16, 735 Eskifjörður
740 - Verkmenntaskólinn á Neskaupstað, Mýrargötu 10 740 Neskaupsstaður
740 -  Bókasafnið, Skólavegur 9, 740 Neskaupstaður.
780 - Nettó, Miðbæ, 780 Höfn
800 - Bókakaffi, Austuvegi Selfossi
800 - Bókasafn Árborgar, Austurvegi 2 800 Selfoss
800 - Vallaskóli, Sólvöllum 2, 800 Selfoss
815 - Bæjarbókasafn, Hafnarbergi 1, 815 Þorlákshöfn 
840 - Bókasafn M.L. Skólatúni 1, 840 Laugarvatn
850 - Héraðsbókasafn Rangæinga
 
Sep16

Bókatíðindi, Íslensku bókmenntaverðlaunin, Blóðdropinn og Bókahátíð í Hörpu

Bókatíðindi
Útgefendur eru  minntir á að frestur til skráninga í prentútgáfu Bókatíðinda er til 30. september 2024. Útgefendur geta sótt um aðgang að skráningu í prentuðu og rafrænu útgáfuna á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. með upplýsingum um nafn útgáfu eða útgefanda, kennitölu og símanúmeri. 
Verð pr. birtingu í rafrænu útgáfunni er kr. 13.000 + vsk.
Verð pr. birtingu í prentútgáfunni er kr. 21.000 + vsk.
Verð fyrir birtingu í prent- og rafútgáfu kr. 34.000 + vsk
 
Bókmenntaverðlaun
Skráning á framlögðum verkum til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Blóðdropans 2024 stendur yfir til 31. október. Sjá nánari upplýsingar á skráningasíðu hér: Skráning framlagðra verka
 
 
 
 
Bókahátíð í Hörpu
Helgina 16.-17. nóvember verður Bókahátíð í Hörpu frá kl. 11-17 báða dagana.  Lesendur koma til að hitta höfunda og útgefendur, nýjar bækur eru seldar á góðu verði og upplestrardagskrá fyrir börn og fullorðna frá kl. 12 -17 báða daga.
Útgefendum nýrra bóka býðst að vera með stand á hátíðinni á meðan pláss leyfir, minnsta mögulega einingin kostar 55.000 + vsk og samanstendur af tveimur eins metra veggjum sem mynda „V“ , einum barstól og einu eins metra breiðu afgreiðsluborði.
Skráning fyrir litlum stöndum fer fram hér og lýkur 1. nóvember: https://forms.gle/xmNMxb2owzWopRdr7
Hafir þú áhuga á stærri stand þá vinsamlegast hafðu samband við okkur á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Frestur til skráningar er til 1. nóvember 2024.
Sep09

Bókamarkaðurinn á Akureyri

Lestur þjálfar læsi

Bókamarkaðurinn á Akureyri hefst 10. september að Óseyri 18, 603 Akureyri. Opið verður alla daga frá kl. 10-18. Markaðurinn stendur til og með laugardagsins 28. september.

Hér má finna pöntunarlista: Pöntunarlisti AEY 2024

Jul18

Vilt þú starfa í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna eða Blóðdropans?

Skráning umsækjenda til setu í dómnefndum Íslensku bókmenntaverðlaunanna og glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans er hafin. Leitað er eftir fullorðnu fólki á öllum aldri með þekkingu og brennandi áhuga á bókmenntum, fjölbreyttan bakgrunn og menntun auk mikils tíma til lesturs. Starfstímabilið er frá 1. september til 1. desember 2024. 
 
Tekið er á móti umsóknum til og með 15. ágúst nk. á þessum hlekk: Skráning umsókna
 
Mikilvægt er að umsækjendur hafi góðan tíma til lesturs og hafi jafnframt aðstöðu til þess að lesa bækur á rafrænu formi. Reikna má með að hverri nefnd berist á bilinu 20-60 bækur. Auk þóknunar fá nefndarmenn allar framlagðar bækur í sínum flokki til eignar.
 
Athugasemdir og fyrirspurnir má senda á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..
Jan31

Íslensku bókmenntaverðlaunin og Blóðdropinn 2023

afhent á Bessastöðum 31. janúar 2024

Íslensku bókmenntaverðlaunin og Blóðdropinn 2023

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti í dag, miðvikudaginn 31. janúar, Íslensku bókmenntaverðlaunin og Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum og í beinni útsendingu á RÚV.

Verðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Nýr verðlaunagripur, Blængur, blásvartur hrafn steyptur í kopar, eftir myndlistarmanninn Matthías Rúnar Siguðrsson, verður afhentur verðlaunahöfum Íslensku bókmenntaverðlaunanna í fyrsta sinn.

Blóðdropann hlaut að þessu sinni:
Eva Björg Ægisdóttir
Heim fyrir myrkur
Útgefandi: Veröld
 
Umsögn lokadómnefndar:
Heim fyrir myrkur er grípandi sálfræðitryllir sem erfitt er að leggja frá sér. Andrúmsloft óhugnaðar og dulúðar er listilega byggt upp og grunsemdum og efa sáð jöfnum höndum í huga lesanda. Sögusviðið er lifandi og vel er unnið úr sögulegum atburðum í bakgrunni frásagnarinnar. Þessi samfélagslegi vinkill, sem snertir á sögu vistheimila á Íslandi, er fléttaður við fjölskyldudrama og hversdagslíf ungs fólks í borgfirsku dreifbýli upp úr miðri síðustu öld og úr verður sannfærandi og afar spennandi frásögn með fjölbreyttu og breysku persónugalleríi. Frásagnaraðferðin er áhugaverð og ísmeygilega unnið með fyrstu persónu sjónarhorn söguhetju sem berst við að ráða í atburði, drauma og flókinn veruleika í nútíð og fortíð um leið og lesandinn berst við hrollinn sem læðist að honum og grípur hann sífellt fastari tökum.
 
Íslensku bókmenntaverðlaunin skiptast  í þrjá flokka og þeir sem að þessu sinni hlutu verðlaunin voru:
 
Barna- og ungmennabækur:
Gunnar Helgason og Rán Flygenring, myndhöfundur
Alexander Daníel Hermann Dawidsson: Bannað að drepa
Útgefandi: Mál og menning
 
Umsögn lokadómnefndar:
Í þessari þriðju bók í seríunni um Alexander er tekist á við stórar spurningar eins og titillinn ber með sér. Stríðsátök, sorg og missir eru í brennidepli en sagan hverfist um nýjan félaga Alexanders, Vola frá Úkraínu. Þessi flóknu málefni eru tækluð með húmor og hlýju þar sem sjónarhorn barnsins ræður för og lesandinn verður virkur þátttakandi í vangaveltum Alexanders. Þar tvinnast vel saman alþjóðlegur atburður og áhrif hans á líf venjulegs fólks á átakasvæðinu og hér heima á Íslandi. Þrátt fyrir grafalvarlegt söguefnið einkennist sagan af leiftrandi frásagnargleði, sem fjörlegar myndir Ránar Flygenring ýta svo enn frekar undir. Eins og í fyrri bókunum er persónusafnið fjölbreytt og litríkt og atburðarásin er spennandi. Bannað að drepa er bók sem er skrifuð af skilningi á hugarheimi barna og virðingu fyrir margbreytileika mannlífsins. Hún veitir ekki endilega einhlít svör við öllum spurningum en býður svo sannarlega upp á lifandi samræður barna og fullorðinna sem lesa hana saman. 
 
Fræðibækur og rit almenns efnis:
Haraldur Sigurðsson
Samfélag eftir máli: Bæjarskipulag á Íslandi og fræðin um hið byggða umhverfi.
Útgefandi: Sögufélag
 
Umsögn lokadómnefndar:
Samfélag eftir máli er yfirgripsmikið verk um sögu og þróun skipulagsmála á Íslandi, einkum í Reykjavík. Ritið byggir á langri og ítarlegri rannsóknarvinnu höfundar, framsetningin er aðgengileg og textinn einkar lipur. Skipulagsfræðin eru sett í samhengi við hugmyndasögu hvers tíma, svo og atvinnu- og lýðræðisþróun, einkum á vesturlöndum, og vísanir í íslenskar og alþjóðlegar bókmenntir og listir þétta verkið og gefa því breiðari skírskotun. Höfundur segir hlutlægt frá, en er gagnrýninn á stefnur og strauma og minnir lesendur oft á að engin algild sannindi eru til í þessum fræðum. Samfélag eftir máli er afar áhugaverð bók um manngert umhverfi okkar, sem skiptir sköpum fyrir samfélagsþróunina, umhverfismál og persónulega líðan okkar allra. Hún á erindi jafnt til fagfólks og almennings, er fagurlega hönnuð og ljóst að hugað er að umhverfisþáttum við gerð hennar.
 
Skáldverk:
Steinunn Sigurðardóttir
Ból
Útgefandi: Mál og menning
 
Umsögn lokadómnefndar:
Ból er efnismikil saga þrátt fyrir að bókin sé ekki ýkja löng. Viðfangsefnið er ástin í öllum sínum fjölbreyttu myndum, en líka missir, tengsl og tengslaleysi, hvort sem er við sjálfa sig eða aðra, umhverfi sitt og náttúru. Ferðalag söguhetjunnar rammar inn frásögnina sem um leið verður innri ferð hennar og uppgjör við lífið. Það er margt sem kraumar undir, líkt og í náttúrunni sem býr sig undir að gjósa, en ferðinni er heitið heim í unaðsreit fjölskyldunnar, Ból, sem er um það bil að verða náttúruöflunum að bráð. Steinunn vefur blæbrigðaríkan textavef sem heldur lesandanum föngnum allt frá upphafi, sagan snertir við honum og tilfinningarnar malla lengi eftir að lestrinum lýkur. Hið ósagða er oft jafn afhjúpandi og það sem sagt er og, líkt og í fyrri verkum Steinunnar, er leikandi írónía í bland við myndríka ljóðrænu einkennismerki textans. Þótt Ból sé að vissu leyti heimsendasaga ræður fegurðin för og það er hún sem situr fastast eftir.
[12  >>