1. grein.

Félagið heitir Félag íslenskra bókaútgefenda og var stofnað árið 1889. Heimili þess er í Reykjavík.

2. grein.

Félagið skal gæta sameiginlegra hagsmuna íslenskra bókaútgefenda. Það skal efla almenna bókmenningu, bókakaup og bóklestur á Íslandi árið um kring. Sérstök áhersla skal lögð á að auka áhuga, barna og ungmenna, á bókum. Þá skal félagið afla sem gleggstra upplýsinga um ástand og horfur á íslenskum bókamarkaði á hverjum tíma svo og þróun útgáfumála og höfundarréttar erlendis.

3. grein.

Allir sjálfstæðir lögaðilar, einstaklingar eða fyrirtæki, sem gefið hafa út að minnsta kosti fjóra bókatitla á undangengnu útgáfuári geta sótt um aðild að félaginu. Beiðni um inngöngu í félagið skal vera skrifleg og sendast formanni sem leggur hana fyrir næsta stjórnarfund.

Um leið og umsókn er samþykkt og inntöku og fyrsta félagsgjald hefur verið  greitt öðlast nýr félagi full réttindi í félaginu, nýtur sérkjara sem félögum bjóðast og gengst undir skyldur sem lög félagsins kveða á um. Ef stjórn félagsins synjar umsækjanda um aðild að félaginu getur hann skotið málinu til félagsfundar. Um atkvæðisrétt á aðalfundi vísast til fimmtu greinar.

4. grein.

Árgjald til félagsins og inntökugjald skal ákvarðað á aðalfundi ár hvert.

5. grein.

Atkvæðisrétt á fundum félagsins hafa þeir félagar sem greitt hafa árgjald til félagsins á starfsárinu. Nýir félagar öðlast þó ekki atkvæðisrétt fyrr en á aðalfundi árið eftir að þeir hafa gengið í félagið. Greiðsla árgjalds veitir fullgildum félögum rétt til eins atkvæðis á félagsfundum og aðalfundi.

6. grein.

Stjórn félagsins fer með málefni þess milli funda, annast fjárreiður, ræður starfsmenn og framkvæmir samþykktir, sem gerðar eru á aðalfundi eða félagsfundum, auk þeirra verkefna sem lög ákveða beint.

Í stjórn félagsins sitja 11 menn að formanni meðtöldum. Formann skal kjósa sérstaklega til eins árs í senn. Árlega skulu að auki kjörnir í stjórn fimm aðalmenn til tveggja ára í stað þeirra sem ganga eiga úr stjórn . Endurkjör er heimilt. Kjör til stjórnar skal vera skriflegt sé þess óskað. Þeir einir geta boðið sig fram til stjórnar sem eru eigendur, stjórnarmenn eða starfsmenn útgáfufélags sem á aðild að félaginu. Missi stjórnarmaður umboð til stjórnarsetu og eða hætti í stjórn áður en kjörtímabili lýkur skal ekki kosinn nýr stjórnarmaður fyrr en á næsta aðalfundi.

Skrifstofa félagsins skal kalla eftir framboðum til stjórnar og formanns með fundarboði til aðalfundar sem senda skal til félagsmanna a.m.k þremur vikum fyrir aðalfund. Tilkynna skal skrifstofu félagsins um framboð eigi síðar en viku fyrir fund. Sitjandi stjórnarmenn, sem eru á seinna ári sem stjórnarmenn, skulu tilkynna skrifstofu félagsins, eigi síðar en fjórum vikum fyrir áætlaðan aðalfund hvort þeir muni gefa kost á sér til stjórnar að nýju.

Liggi fyrir að afloknum framboðsfresti að ekki hafi fengist framboð til allra lausa sæta í stjórn er fráfarandi stjórn heimilt að leita eftir framboðum til stjórnar þó framboðsfresti sé lokið og eru í því tilviki framboð einstaklings sem stjórn leitar til eftir lok venjulegs framboðsfrests gild.

Ljúki stjórnarmaður störfum hjá útgáfufélagi er umboði hans sem stjórnarmanns lokið. Hið sama gildir ef útgáfufélag hættir útgáfustarfsemi þ.e.a.s þá er umboð þess aðila sem kosinn var í stjórnina sem starfsmaður viðkomandi útgefanda lokið. Skipti stjórnarmaður um starf en vinni áfram hjá útgáfufélagi sem á aðild að félaginu eða nýju útgáfufélagi sem hefur sótt um aðild að félaginu sem fyrir liggur að verði samþykkt sem félagi á næsta aðalfundi þá er honum heimilt að sitja áfram í stjórn félagsins.

Ársreikning félagsins skal gera í lok hvers reikningsárs sem er frá 1. janúar til 31. desember og leggja reikninginn endurskoðaðan fyrir aðalfund til samþykktar.

Stjórn skal semja og/eða samþykkja starfsreglur og starfsáætlun fyrir stjórn í upphafi starfsársins. Í starfsreglum skal m.a. fjallað um verkaskiptingu stjórnar og ábyrgð einstakra stjórnarmanna og hvaða verk skuli falin starfsmönnum félagsins sem og um ábyrgð á fjármálum og reikningsskilum félagsins. Jafnframt skal stjórn halda lista um heiðursfélaga og samþykkja reglur um heiðursaðild að félaginu. Heiðursfélagar geta bara verið einstaklingar en ekki félög.

7. grein.

Aðalfundur fer með æðstu völd varðandi málefni félagsins. Hann setur félaginu lög samanber 9. grein og kýs stjórn þess. Aðalfund skal halda fyrir lok febrúar mánaðar ár hvert og skulu þar tekin fyrir eftirfarandi dagskrárefni í þessari röð:

1. Formaður skýrir frá gjörðum félagsins á liðnu starfsári.
2. Formaður leggur fram reikning félagsins fyrir liðið starfsár til samþykktar.
3. Teknar eru til afgreiðslu tillögur um lagabreytingar ef einhverjar eru.
4. Fram fer kosning formanns til eins árs.
5. Fram fer kosning annarra stjórnarmanna samkvæmt 6.grein laga.
6. Fram fer kosning löggilts endurskoðanda félagsins.
7. Stjórn leggur fram tillögu að árgjaldi og inntökugjaldi félagsmanna til samþykktar.
8. Tekin eru fyrir önnur mál er upp kunna að verða borin.

Aðalfund og félagsfundi skal boða í bréfi eða með tölvupósti eða á annan sannanlegan hátt með minnst viku fyrirvara. Þessir fundir eru lögmætir séu þeir löglega boðaðir.

Á fundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða, nema í undantekningartilvikum sbr. 8., 9. og 10. grein. Félagi getur falið starfsmanni sínum eða öðrum aðila að fara með atkvæði sitt á aðalfundi og félagsfundum, enda sé það gert skriflega, umboð lagt fram á fundi og þess getið í fundargerð.


Félagsfundi skal halda þegar stjórn félagsins ákveður eða þegar þrír félagar krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni. Þá skal stjórn boða til fundar innan 14 daga frá því að henni barst krafa um fund. Í fundarboði skal geta helstu mála. Félagsfundir ráða málefnum félagsins næst á eftir aðalfundi.

8. grein.

Úrsögn úr félaginu skal miðast við áramót. Hafi félagi ekki greitt árgjald sitt og/eða inntökugjald síðastliðin tvö ár fyrir aðalfund missir hann tímabundið félagsréttindi sín og atkvæðisrétt á fundum þar til uppgjör hefur farið fram.

Félagsmaður sem ekki hefur gefið út bók sl. fjögur ár fellur sjálfkrafa af félagsskrá. Skal félaga tilkynnt um að hann falli af félagsskrá með mánaðar fyrirvara. Félagi getur sótt um undanþágu frá því að hann falli af félagsskrá til stjórnar félagsins sem er heimilt að verða við ósk liggi fyrir að um tímabundna stöðvun á útgáfustarfsemi sé að ræða.

Til þess að víkja skráðum félaga sem uppfyllir almenn inntökuskilyrði úr félaginu þarf 4/5 atkvæða allra viðstaddra félaga á lögmætum fundi enda hafi fyrirhugaður brottrekstur verið kynntur í fundarboði og hvaða ástæður stjórn telur réttlæta brottvikningu úr félaginu.

9. grein.

Lögum þessum verður ekki breytt né við þau aukið nema á aðalfundi og skulu tillögur um breytingar á þeim boðaðar félögum viku fyrir fund. Til þess að lagabreytingar séu lögmætar þarf að samþykkja þær með 2/3 hlutum greiddra atkvæða.

10. grein.

Nú þykir ráðlegt að slíta félaginu og skal tillaga um það send öllum félögum mánuði áður en hún kemur fyrir félagsfund. Til þess að hún öðlist samþykki þarf hún að hljóta 4/5 atkvæða og ákveður þá fundurinn hvernig eignum og skuldum félagsins skuli ráðstafað.

 

(Lög endurskoðuð og samþykkt á aðalfundi félagsins 08.02.2018

Bráðabirgðaákvæði – Á aðalfundi 2018 skul kosnir fimm aðalmenn í stjórn til tveggja ára og einn aðalmaður til eins árs.