Yfirlýsing frá stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda
,,Stjórnarfrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, um stuðning við bókaútgáfu felur í sér mikilvæg tíðindi fyrir íslenska bókmenningu. Með því er staðfestur sá vilji ráðherra og stjórnvalda að sporna gegn þeim samdrætti sem orðið hefur á sölu íslenskra bóka á liðnum árum og auka lestur þjóðarinnar. Vandi bókaútgáfunnar er reifaður ítarlega og boðið upp á lausn sem er líkleg til þess að gagnast þeim sem með einum eða öðrum hætti tengjast útgáfu íslenskra bóka.
Í frumvarpinu er byggt á reynslu af sama fyrirkomulagi fyrir íslenska kvikmyndagerð og tónlist. Má þar vísa í úttekt sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði árið 2015 á jákvæðum hagrænum áhrifum endurgreiðslufyrirkomulags á kvikmyndagerð á Íslandi. Aðstandendur kvikmyndagerðar geta einnig vitnað um hversu virðisaukandi áhrif endurgreiðslufyrirkomulagið hefur haft á þá sem starfa í greininni. Stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda telur að jákvæð áhrif muni einnig skila sér með sambærilegum hætti til þeirra sem starfa við bókaútgáfu.
Þetta er fagnaðarefni fyrir þá sem starfa að útgáfu íslenskra bóka og ekki síður lesendur, sem þarfnast fjölbreyttrar og kraftmikillar útgáfu árið um kring. Stjórnvöld staðfesta með frumvarpinu menningarlegt mikilvægi bókaútgáfu, meðal annars við ræktun og verndun íslenskunnar. Við teljum aðgerðina líklega til þess að skila góðum árangri, íslenskri þjóð og tungu til heilla.“
Samþykkt á stjórnarfundi þann 3. október 2018.
Heiðar Ingi Svansson, formaður