Fjöruverðlaunin auglýsa eftir tilnefningum í ár
Hægt er að leggja fram bækur eftir konur (sís og trans), trans fólk, kynsegin fólk og intersex fólk
Nú stendur yfir móttaka framlagðra bóka til Fjöruverðlaunanna. Aðeins bækur/handrit sem hafa borist fyrir 29. október koma til greina. Þátttökukostnaður er ókeypis, en þremur eintökum þarf að skila inn fyrir dómnefnd.
Hægt er að tilnefna bækur í þremur flokkum:
- fagurbókmenntir
- fræðirit og bækur almenns eðlis
- barna- og unglingabókmenntir
Dómnefndarbókum skal komið til Bryndísar á skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda í allra síðasta lagi föstudaginn 29. október 2021. Ef ekki er unnt að koma prentuðum bókum til skila fyrir þann tíma, er nauðsynlegt að senda rafrænt eintak á bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir þann dag, svo að bókin komi til greina. Þá þurfa útgefendur að koma þremur prentuðum eintökum af sömu bók á skrifstofu FÍBÚT fyrir föstudaginn 19. nóvember 2021.
Þrjár bækur eru tilnefndar í hverjum flokki og verða tilnefningar kynntar í desember 2021. Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi, verða svo veitt 8. mars 2022.
Hvaða bækur koma til greina?
Miðað er við að til að bækur teljist hæfar til að vera í Fjöruverðlaunapottinum séu þær:
- skrifaðar af konu/konum, trans fólki, kynsegin fólki eða intersex fólki
- frumútgáfa sé á íslensku
- gefnar út af forlagi á Íslandi
- koma út í fyrsta sinn á því ári sem um ræðir (ekki endurútgáfur)
- innihaldi texta af einhverju tagi
- að kona/konur eða trans/kynsegin/intersex fólk eigi a.m.k. 50% af textanum í bókinni, eða að kona/konur eða eða trans/kynsegin/intersex fólk séu helmingur höfunda (ef margir)
- Ef upp koma vafaatriði er það hverrar dómnefndar fyrir sig að vega og meta hvort umrædd bók skuli talin gjaldgeng eða ekki.
Nánari upplýsingar veitir stjórn Fjöruverðlaunanna í netfanginu bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com.