Í tæp 130 ár hefur Félag íslenskra bókaútgefenda staðið vörð um hagsmuni þeirra sem vilja efla bókmenningu og bóklestur. Svarið við spurningunni um hve miklu máli bækur og bókmenning skipta okkur sem þjóð, er ekki einfalt heldur margslungið. Hluti af því felst í sjálfsmynd okkar, við höfum löngum gengist upp í því að vera bóka- og sagnaþjóð og viljum vera það áfram. Árið 2011 var Ísland heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt, stærstu bókasýningu heimsins. Kynningin fór fram undir yfirskriftinni „Sögueyjan Ísland‟ og vakti mikla alþjóðlega athygli. Verkefnið var dyggilega stutt af íslenskum stjórnvöldum og skilaði sér meðal annars í verulegri aukningu á þýðingum og útgáfu íslenskra bóka á erlendum tungumálum. Og nú, í október 2018, þegar þessari árlegu bókamessu er nýlokið vakti sú ákvörðun stjórnvalda á Íslandi að styðja við útgáfu íslenskra bóka með allt að 25% endurgreiðslu á beinum útgáfukostnaði, einnig verðskuldaða athygli.
Lítum aðeins nánar á hvað liggur að baki því að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, leggur fram stjórnarfrumvarp til stuðnings íslenskri bókaútgáfu. Það er óumdeilt að sölusamdráttur í greininni er samkvæmt tölum frá Hagstofunni 40% á síðustu 10 árum. Samdrátturinn yfir þetta tímabil er viðvarandi og ekkert sem bendir til annars en að hann muni halda áfram, verði ekkert að gert. Einnig er það óumdeilt að staða námsbókaútgáfu á Íslandi er grafalvarleg þar sem skortur á nýju og uppfærðu námsefni er farinn að skapa vandamál í ýmsum greinum. Bókaútgáfa, sem ein af lykilstoðum íslenskrar menningar, hefur mikilvægu hlutverki að gegna í þróun íslenskrar tungu og þegar kemur að því að efla læsi. Þessi mikilvægu verkefni okkar eru í ákveðinni hættu sökum þessa samdráttar. Einnig er raunveruleg hætta á því að sú þekking og reynsla sem nú er til staðar í okkar atvinnugrein, hverfi og leiti annað. Við erum komin að þolmörkum þess hve mikinn samdrátt greinin þolir, án þess að undirstöðurnar hreinlega hrynji. Sjálfsmynd íslenskrar bókaútgáfu er líka í ákveðinni kreppu, en hún hefur í gegnum árin verið rekin af bjartsýni, hugsjón og stórhug. Enda gengur það kraftaverki næst að hægt sé að reka metnaðarfulla bókaútgáfu hér á landi, þvert á markaðslegar forsendur um lágmarksstærð málssamfélags.
Frumvarpið er mikilvægt skref í þá átt að blása bjartsýnisbyr í trosnandi segl bókaútgefenda, stuðla að meira rými fyrir sköpun höfunda, auka fjölbreytni og snúa við þessari neikvæðu þróun. Aðgerðin miðar að því að gera útgefendur betur í stakk búna til að mæta auknum kröfum og margþættum þörfum nútíma lesenda, með betra úrvali og meiri fjölbreytni, ekki síst þegar kemur að útgáfu barna- og ungmennabóka.
Nú er spennandi árstími framundan, jólabókaflóðið, sem erlendir fjölmiðlar þreytast ekki á að fjalla um, er skollið á og nýjar íslenskar bækur streyma í verslanir. Staða bókarinnar á íslenskum jólagjafamarkaði er enn sterk, sölusamdrátturinn hefur að mestu verið utan við þennan helsta sölutíma ársins. En það er ekki nóg að gefa út margar bækur, við þurfum líka að lesa þær. Við þurfum að tala meira um bækur, rétta börnum bækur og lesa fyrir þau, hlusta á fleiri bækur – gefa þær og þiggja. Það byrjar allt hjá á okkur sjálfum. Finnum tíma til að njóta þess að lesa.
Það er afar viðeigandi að á næsta ári, þegar Félag íslenskra bókaútgefenda fagnar 130 ára afmæli, ætli stjórnvöld að færa þjóðinni þennan veglega stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Framtíðin mun dæma um hversu mikilvægt þetta umfangsmikla og metnaðarfulla framtak stjórnvalda verður í sögu bókaútgáfu á Íslandi. En eitt er víst að það er sannarlega tilefni til bjartsýni á að aðgerðirnar leiði til góðs fyrir íslenska lesendur og alla þá sem með einum eða öðrum hætti koma að útgáfu bóka á íslensku.
Heiðar Ingi Svansson
Formaður Félags íslenskra bókaútgefenda