Jan31

Íslensku bókmenntaverðlaunin, ræða formanns sjórnar Félags íslenskra bókaútgefenda

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Íslensku bókmenntaverðlaunin, ræða formanns sjórnar Félags íslenskra bókaútgefenda

Herra forseti, forsetafrú, höfundar, útgefendur, aðrir gestir hér á Bessastöðum og ekki síst þið sem heima sitjið,

Undanfarin tvö ár hefur verið framkvæmd lestrarkönnun af ýmsum aðilum sem tengjast bókum og bókmenningu. Um framkvæmd könnunarinnar sér Miðstöð íslenskra bókmennta og er hún gerð í samstarfi við helstu aðila á bókmenntasviðinu sem eru ásamt okkur í Félagi íslenskra bókaútgefenda; Rithöfundasamband Íslands, Hagþenkir, Borgarbókasafnið, Landsbókasafn – Háskólabókasafn og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO.

Niðurstöðurnar, sem voru birtar um miðjan nóvember s.l., eru að mörgu leyti áhugaverðar. Þar kemur m.a. fram að lestur hefur heldur aukist og þá sérstaklega vegna aukinnar notkunar hljóðbóka. Afkastamestu lesendurnir eru konur og barnafjölskyldur og ungt fólk les mikið á öðrum tungumálum en íslensku. Einnig kemur skýrt fram að samtal um um bækur lifir góðu lífi og hefur mikil áhrif á hvað fólk les. Þannig fær um helmingur svarenda hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum.

Það skiptir sem sagt miklu máli fyrir lestur, útbreiðslu og sölu bóka að við tölum um bækur, því að þeir sem standa okkur nærri taka mark á því sem við segjum þeim varðandi lestrarupplifun okkar. Þannig getum við öll sem hér erum í þessu ágæta boði haft áhrif á það hvað aðrir gestir lesa næst, með því einfaldlega að segja þeim frá bókum sem hafa veitt ykkur góðar stundir að undanförnu. Sama getið þið gert sem heima sitjið; jafnvel strax í kvöld við þá þeim sem eru hjá ykkur heima í stofu, á kaffistofunni í vinnunni fyrramálið, í næsta barnaafmæli eða í spjalli í biðröð við kassa í matvöruverslun. Auk þess hefur umræða um bækur manna í millum færst í vaxandi mæli yfir á samfélagsmiðla og þar má finna ýmiskonar hópa þar sem fólk talar um bækur og miðlar upplifun sinni af lestri eða hlustun bóka. Á Facebook  er til dæmis opinn hópur sem heitir,, Bókagull – umræða um góðar bækur“ sem var stofnaður árið 2010 og meðlimir í honum voru síðast þegar ég aðgætti 12.339. Stofnandi síðunnar, Magnea Magnús, fyrrum eigandi Bókaverslunar Þórarins Stefánssonar á Húsavík, segir þetta um markmið og tilgang hópsins: ,,Hér í Bókagulli spjöllum við um bækur sem við erum búin að lesa eða langar til að lesa. Hér eru engar auglýsingar leyfðar, hvorki á bókum né atburðum. Njótið vel 😊“  Með því að halda þessum hópi gangandi í 10 ár hefur Magnea með einlægum áhuga og ástríðu sinni fyrir íslenskum bókum, lagt mikið af mörkum til að efla lestur og dýpka lestrarmenningu. A.m.k. hefur umræðan þar haft áhrif á sjálfan mig og hvatt mig til að lesa bækur sem annars hefðu mögulega ekki fangað athygli mína.

En þær finnast víðar í samfélagi okkar, Magneurnar, sem vilja efla umfjöllun um bækur og bókmenningu og hvetja til aukins bóklesturs. Við búum nefnilega svo vel að eiga bókaunnendur í öllum hornum þjóðfélagsins, öflugt fólk sem hvetur til aukins lesturs með því til dæmis að deila lestrarupplifun sinni með öðrum, starfrækja leshringi, sækja bókmenntaviðburði, fjalla um bækur í fjölmiðlum eða með pólitískum stuðningi ríkis og sveitarfélaga.

Samkvæmt áðurnefndri könnun telur yfirgnæfandi meirihluti svarenda að opinber stuðningur við bókmenntir sé mikilvægur, sem endurspeglar vel þann vilja stjórnvalda að telja þeim tæplegu 230 milljónum vel varið sem Launasjóður listamanna greiðir samtals 82 rithöfundum í formi 555 mánuða verktakalauna til að sinna ritstörfum sínum.

Vissulega eigum við bókaunnendur marga ómetanlega fótgönguliða sem af natni og einlægri ástríðu höndla með bækur inn á bókasöfnum landsins, bæði almenningsbókasöfnum og skólabókasöfnum. En rekstrarumhverfinu er víðast þröngur stakkur búinn; fjármagn til bókakaupa er ábótavant, aðbúnaður lélegur og markaðsstarf lítt sýnilegt nema þeim sem þegar sækja söfnin. Hér þarf að taka mun fastar í árar og virkja allar þær Magneur sem fyrirfinnast hjá sveitarfélögum og hinu opinbera til að styrkja starfsemi þessara safna sem gegna afar mikilvægu hlutverki við eflingu bókmenningar okkar.

Undanfarin ár hefur Reykjavíkurborg í samstarfi við okkur hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda farið fram með góðu fordæmi og eyrnamerkt ákveðna viðbótar fjárhæð á hverju ári sem eingöngu er ætlað að kaupa nýjar barnabækur fyrir skólabókasöfn sín. Hér mættu fleiri sveitarfélög í landinu fylgja með og auka verulega innkaup til að tryggja betra aðgengi notenda sinna að nýjum bókum. Enda er það engin tilviljun að skólabókasöfn skuli oft vera kölluð hjartað í hverjum skóla. Það er óskiljanlegt að bættur aðbúnaður og aukin innkaup bókasafna skuli ekki vera sjálfsagður hluti af öllum þeim fjölmörgu lestrarhvatningarverkefnum sem opinberir aðilar hafa lagt af stað með.

Áfram vil ég benda á það sem betur má fara. Fyrirkomulag námsbókaúgáfu hér á landi fyrir grunn- og framhaldsskóla er verulega ábótavant og þarfnast gagngerar uppstokkunar og endurskoðunar. Það er því mikið gleðiefni að slíkt sé einmitt hluti af aðgerðum Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra í þeim tilgangi að bregðast við miður góðum niðurstöðum síðustu PISA könnunnar. Hér er umfangsmikið og vandasamt verk framundan sem staðfestir mikilvægi námsbóka við að efla læsi og bæta orðaforða og málskilning nemenda.

Íslenskir bókaútgefendur eru sannarlega reiðubúnir til að leggja sitt af mörkum svo að þessi aðgerð geti lánast sem best, samfélaginu okkar til heilla.

En að máli málanna hér í kvöld, íslensku bókmenntaverðlaununum sem forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson mun afhenda eftir skamma stund. Félag íslenskra bókaútgefenda stofnaði til verðlaunanna með það að megin markmiði að auka opinbera umræðu á nýjum bókum, ekki síst á vettvangi fjölmiðla, og draga athyglina að íslenskum rithöfundum og útgáfuverkum þeirra. Það er því með miklu stolti sem við kunngerum Íslensku bókmenntaverðlaunin í 31. skipti í ár. Mér reiknast svo til að samtals 72 höfundar hafi fengið verðlaunin frá upphafi. Undanfarin ár höfum við tilnefnt til verðlaunanna í þremur flokkum, í flokki fagurbókmennta, í flokki fræðibóka og rita almenns efnis og í flokki barna- og ungmennabóka. Að þessu sinni voru lagðar fram 135 bækur af 36 útgefendum í öllum flokkunum þremur og venju samkvæmt var þann 1. desember s.l. tilkynnt um tilnefningar 15 bóka til verðlaunanna, 5 í hverjum flokki fyrir sig. Verðlaunahafi hvers flokks hlýtur svo eina milljón króna í verðlaunafé frá Félagi íslenskra bókaútgefenda.

Fyrir hönd félagsins vil ég þakka öllu dómnefndarfólki innilega fyrir einstaklega vel unnin störf og þá ekki síst lokadómnefndinni, en hana skipuðu Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Bergsteinn Sigurðsson,  Knútur Hafsteinsson og Ingunn Ásdísardóttir, sem jafnframt var formaður nefndarinnar skipuð af forseta Íslands. Einnig langar mig að þakka forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, forsetafrú Elízu Reid, starfsfólki forsetaskrifstofunnar og ekki síst Ríkisútvarpinu fyrir ánægjulegt og farsælt samstarf.

Að þessu sögðu þakka ég fyrir mig og óska þess að við tökum öll höndum saman um að íslensk bókmenning megi vaxa og blómstra!