Jan29

Afhending Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2019

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

 

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin 2019, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þriðjudaginn 28. janúar 2020. Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda.

Verðlaunin skiptust  í þrjá flokka og þeir sem að þessu sinni hlutu verðlaunin voru:

Fræðibækur og rit almenns efnis:

Jón Viðar Jónsson
Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925 - 1965
Útgefandi: Skrudda

Barna- og ungmennabækur:

Bergrún Íris Sævarsdóttir
Langelstur að eilífu
Útgefandi: Bókabeitan

Fagurbókmenntir:

Sölvi Björn Sigurðsson
Selta - Apókrýfa úr ævi landlæknis
Útgefandi: Sögur Útgáfa

Í umsögn dómnefndar um verkin segir:

Stjörnur og stórveldi eftir Jón Viðar Jónsson:

Hér eru helstu stjörnurnar í leiklistarsögu þjóðarinnar á fyrri hluta 20. aldar dregnar lifandi og skýrum dráttum og list þeirra gerð ítarleg og góð skil. Þrátt fyrir að bókin byggi á köflum um einstaka leikara og leiksögu þeirra, gefur hún jafnframt samfellda og skýra mynd af fyrstu árum reglulegrar leiklistarstarfsemi hér á landi, ekki aðeins á leiksviðinu sjálfu heldur einnig í útvarpi og á bak við tjöldin og er því mikilvægt framlag til leiklistarsögu okkar.

Langelstur að eilífu eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur:

Í bókinni Langelstur að eilífu er fjallað á hispurslausan hátt um elli, dauða og sorg. Þessu viðkvæma efni eru gerð afar falleg skil í bæði texta og myndum sem miðla sögunni í sameiningu. Þetta er áhrifarík en jafnframt hnyttin og skemmtileg bók um þarft umfjöllunarefni fyrir börn

Selta eftir Sölva Björn Sigurðsson:

Frumleg og áhrifarík saga sem fer víða með lesandann í tíma og rúmi, yfir vötn og lönd en ekki síður innansálar. Hið ytra er frásögnin sett niður fyrir tveimur öldum en jafnframt rambar hún á barmi raunveru og hugarflugs. Sögunni er valið málsnið sem hæfir bæði sögutíma og frásagnaraðferð og sýnir höfundur þar fágæta stílsnilld.