Oct25

MÍB - opið fyrir umsóknir um þýðingastyrki

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Oct17

Bjartsýnisbyr fyrir íslenskar bækur

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Formaður FÍBÚT skrifar um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, um stuðning við útgáfu bóka á íslensku

Bjartsýnisbyr fyrir íslenskar bækur

Í tæp 130 ár hefur Félag íslenskra bókaútgefenda staðið vörð um hagsmuni þeirra sem vilja efla bókmenningu og bóklestur. Svarið við spurningunni um hve miklu máli bækur og bókmenning skipta okkur sem þjóð, er ekki einfalt heldur margslungið. Hluti af því felst í sjálfsmynd okkar, við höfum löngum gengist upp í því að vera bóka- og sagnaþjóð og viljum vera það áfram. Árið 2011 var Ísland heiðursgestur á bókamessunni í Frankfurt, stærstu bókasýningu heimsins. Kynningin fór fram undir yfirskriftinni „Sögueyjan Ísland‟ og vakti mikla alþjóðlega athygli. Verkefnið var dyggilega stutt af íslenskum stjórnvöldum og skilaði sér meðal annars í verulegri aukningu á þýðingum og útgáfu íslenskra bóka á erlendum tungumálum. Og nú, í október 2018, þegar þessari árlegu bókamessu er nýlokið vakti sú ákvörðun stjórnvalda á Íslandi að styðja við útgáfu íslenskra bóka með allt að 25% endurgreiðslu á beinum útgáfukostnaði, einnig verðskuldaða athygli.

Lítum aðeins nánar á hvað liggur að baki því að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, leggur fram stjórnarfrumvarp til stuðnings íslenskri bókaútgáfu. Það er óumdeilt að sölusamdráttur í greininni er samkvæmt tölum frá Hagstofunni 40% á síðustu 10 árum. Samdrátturinn yfir þetta tímabil er viðvarandi og ekkert sem bendir til annars en að hann muni halda áfram, verði ekkert að gert. Einnig er það óumdeilt að staða námsbókaútgáfu á Íslandi er grafalvarleg þar sem skortur á nýju og uppfærðu námsefni er farinn að skapa vandamál í ýmsum greinum. Bókaútgáfa, sem ein af lykilstoðum íslenskrar menningar, hefur mikilvægu hlutverki að gegna í þróun íslenskrar tungu og þegar kemur að því að efla læsi. Þessi mikilvægu verkefni okkar eru í ákveðinni hættu sökum þessa samdráttar. Einnig er raunveruleg hætta á því að sú þekking og reynsla sem nú er til staðar í okkar atvinnugrein, hverfi og leiti annað. Við erum komin að þolmörkum þess hve mikinn samdrátt greinin þolir, án þess að undirstöðurnar hreinlega hrynji. Sjálfsmynd íslenskrar bókaútgáfu er líka í ákveðinni kreppu, en hún hefur í gegnum árin verið rekin af bjartsýni, hugsjón og stórhug. Enda gengur það kraftaverki næst að hægt sé að reka metnaðarfulla bókaútgáfu hér á landi, þvert á markaðslegar forsendur um lágmarksstærð málssamfélags.  

Frumvarpið er mikilvægt skref í þá átt að blása bjartsýnisbyr í trosnandi segl bókaútgefenda, stuðla að meira rými fyrir sköpun höfunda, auka fjölbreytni og snúa við þessari neikvæðu þróun. Aðgerðin miðar að því að gera útgefendur betur í stakk búna til að mæta auknum kröfum og margþættum þörfum nútíma lesenda, með betra úrvali og meiri fjölbreytni, ekki síst þegar kemur að útgáfu barna- og ungmennabóka.

Nú er spennandi árstími framundan, jólabókaflóðið, sem erlendir fjölmiðlar þreytast ekki á að fjalla um, er skollið á og nýjar íslenskar bækur streyma í verslanir. Staða bókarinnar á íslenskum jólagjafamarkaði er enn sterk, sölusamdrátturinn hefur að mestu verið utan við þennan helsta sölutíma ársins. En það er ekki nóg að gefa út margar bækur, við þurfum líka að lesa þær. Við þurfum að tala meira um bækur, rétta börnum bækur og lesa fyrir þau, hlusta á fleiri bækur – gefa þær og þiggja. Það byrjar allt hjá á okkur sjálfum. Finnum tíma til að njóta þess að lesa.

Það er afar viðeigandi að á næsta ári, þegar Félag íslenskra bókaútgefenda fagnar 130 ára afmæli, ætli stjórnvöld að færa þjóðinni þennan veglega stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Framtíðin mun dæma um hversu mikilvægt þetta umfangsmikla og metnaðarfulla framtak stjórnvalda verður í sögu bókaútgáfu á Íslandi. En eitt er víst að það er sannarlega tilefni til bjartsýni á að aðgerðirnar leiði til góðs fyrir íslenska lesendur og alla þá sem með einum eða öðrum hætti koma að útgáfu bóka á íslensku.

Heiðar Ingi Svansson

Formaður Félags íslenskra bókaútgefenda

Oct09

Yfirlýsing frá stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

,,Stjórnarfrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, um stuðning við bókaútgáfu felur í sér mikilvæg tíðindi fyrir íslenska bókmenningu. Með því er staðfestur sá vilji ráðherra og stjórnvalda að sporna gegn þeim samdrætti sem orðið hefur á sölu íslenskra bóka á liðnum árum og auka lestur þjóðarinnar. Vandi bókaútgáfunnar er reifaður ítarlega og boðið upp á lausn sem er líkleg til þess að gagnast þeim sem með einum eða öðrum hætti tengjast útgáfu íslenskra bóka.

Í frumvarpinu er byggt á reynslu af sama fyrirkomulagi fyrir íslenska kvikmyndagerð og tónlist. Má þar vísa í úttekt sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði árið 2015 á jákvæðum hagrænum áhrifum endurgreiðslufyrirkomulags á kvikmyndagerð á Íslandi. Aðstandendur kvikmyndagerðar geta einnig vitnað um hversu virðisaukandi áhrif endurgreiðslufyrirkomulagið hefur haft á þá sem starfa í greininni. Stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda telur að jákvæð áhrif muni einnig skila sér með sambærilegum hætti til þeirra sem starfa við bókaútgáfu.

Þetta er fagnaðarefni fyrir þá sem starfa að útgáfu íslenskra bóka og ekki síður lesendur, sem þarfnast fjölbreyttrar og kraftmikillar útgáfu árið um kring. Stjórnvöld staðfesta með frumvarpinu menningarlegt mikilvægi bókaútgáfu, meðal annars við ræktun og verndun íslenskunnar. Við teljum aðgerðina líklega til þess að skila góðum árangri, íslenskri þjóð og tungu til heilla.“

Samþykkt á stjórnarfundi þann 3. október 2018.

Heiðar Ingi Svansson, formaður

Sep20

Á næstunni: Bókatíðindi, Bókamessa í Hörpu og Íslensku bókmenntaverðlaunin

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

 BÓKATÍÐINDI Hafin er móttaka kynninga nýrra íslenskra bóka fyrir Bókatíðindi 2018. Verð hverrar kynningar er kr. 26.990 + vsk. Lokafrestur til skráningar er 17. október nk. Nánari upplýsingar má finna hér: Móttaka efnis í Bókatíðindi

BÓKAMESSA Í HÖRPU Árleg Bókamessa Bókmenntaborgar og Félags íslenskra bókaútgefenda verður haldin í Hörpu dagana 24.-25. nóvember nk. Útgefendum nýrra bóka er bent á að bóka þarf þátttöku fyrir 19. október nk. á netfangið bryndis@fibut.is

ÍSLENSKU BÓKMENNTAVERÐLAUNIN Tilkynna skal skrifstofu félagsins um framlagðar bækur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna eigi síðar en 8. október 2018 á fibut@fibut.is. Gjald fyrir framlagðar bækur er kr. 33.500. Nánari upplýsingar má finna hér Skráning þátttöku í Íslensku bókmenntaverðlaununum

Sep12

Ríkisstjórn Íslands kynnir aukinn stuðning við útgefendur

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Ríkisstjórn Íslands kynnir aukinn stuðning við útgefendur

Ríkisstjórn Íslands kynnti fjárlög fyrir árið 2019 í gær. Þar komu meðal annars fram plön um að veita útgefendum íslenskra bóka sambærilega endurgreiðslu og þegar tíðkast í tónlistar- og kvikmyndaiðnaðinum. Nefnt er að 25% af framleiðslukostnaði bóka á íslensku, þýðinga jafnt sem frumsamins efnis verði endurgreiddur og áætlar ríkisstjórnin um 400 milljónum til þessa verkefnis á næsta ári. Vænta má nánari útfærslu á næstu dögum.

Aug10

Styrkir vegna útgáfu á frönskum bókum

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Styrkir vegna útgáfu á frönskum bókum

 

 

Frakkar bjóða útgefendum franskra bóka að sækja um bæði þýðingastyrki og styrki til kaupa á útgáfuréttindum. Nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð má finna á vefsíðum sjóðanna:

Hjá Institut français:

http://www.institutfrancais.com/en/pap

Hjá Centre National du Livre:

http://www.centrenationaldulivre.fr/en/editeur/aide_a_la_traduction/aide_pour_la_traduction_d_ouvrages_francais_en_langues_etrangeres/

Einnig hjá Centre National du Livre:

http://www.centrenationaldulivre.fr/en/auteur-traducteur/aide_a_la_traduction/credits-de-traduction/

Aug01

Styrkir til þýðinga á skoskum verkum

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

The Publishing Scotland Translation Fund býður útgefendum skoskra verka að sækja um styrki til þýðinga. Sjóðurinn er nýlegur, var stofnaður árið 2015. Áhersla er lögð á samtímabókmenntir af öllu tagi, skáldverk, ljóð, fræðirit, barnabækur og teiknimyndasögur. Næsti umsóknafrestur er 13. ágúst.

Nánari upplýsingar má nálgast hér: The Publishing Scotland Translation Fund

Apr16

Vorbókatíðindum dreift á sumardaginn fyrsta

Höfundur Bryndís Loftsdóttir

Vorbókatíðindum dreift á sumardaginn fyrsta

Vorbókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda verður dreift með Morgunblaðinu í aldreifingu á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri á sumardaginn fyrsta, þann 19. apríl.

Í Vorbókatíðindum má að þessu sinni finna kynningar á 112 nýútgefnum bókum svo allir ættu að finna sér eitthvað nýtt og skemmtilegt að lesa í sumar.

Forsíðumyndina gerði Halldór Baldursson og rafræna útgáfu ritsins má nálgast hér: VORBÓKATÍÐINDI

Apr16

Bókamörkuðum lokið

Höfundur Bryndís Loftsdóttir Categories // Frettir

Bókamörkuðum lokið

Bókamarkaðurinn var haldinn í 5. sinn á Laugardalsvelli dagana 23. febrúar til 11. mars. Barnabókadeildin var stækkuð umtalsvert í ár og hefur aðgengi að barnabókum aldrei verið betra. Þá var úrval bóka gott, skráðar voru söluhreyfingar á um 5.500 titla.

Bókamarkaðurinn flutti svo norður til Akureyrar um páskana. Markaðurinn opnaði á Glerártorgi 22. mars og stóð til 3. apríl. Góð aðsókn var að báðum mörkuðum.

Gert er ráð fyrir að Bókamarkaðurinn opni aftur á Laugardalsvelli föstudaginn 22. febrúar 2019.

Feb15

Tveir nýir heiðursfélagar

Höfundur Bryndís Loftsdóttir

Aðalfundur Félags íslenskra bókaútgefenda var haldinn á Nauthóli 8. febrúar síðast liðinn. Á fundinum var tilkynnt um útnefningu tveggja heiðursfélaga félagsins en þeir eru Sverrir Kristinsson og Björn Eiríksson. Tók Sverrir við viðurkenningunni frá félaginu á fundinum en aðstandendur Björns tóku við henni fyrir hans hönd en hann lést í nýliðnum mánuði.

Sverrir hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra (bókavarðar) Hins íslenska bókmenntafélags í tæplega hálfa öld. Hann stofnaði og rak bókaútgáfuna Lögberg á árunum 1980-1989, sem gaf út stórvirki og dýrgripi af margvíslegu tagi í samstarfi við ýmsa aðila, m.a. Stofnun Árna Magnússonar, Listasafn ASÍ, Þjóðminjasafn Íslands og Hið íslenska biblíufélag. Meðal bókverka Lögbergs má nefna Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar, Skálholt fornleifarannsóknir, ljósprentun Guðbrandsbiblíu, Skarðsbókar og Helgastaðabókar, ásamt ritröð um íslenska myndlist. Meðal þess sem Bókmenntafélagið hefur gefið út á þessu tímabili, sem Sverrir hefur verið framkvæmdastjóri, má nefna Sögu Íslands, Safn til iðnsögu Íslendinga, bækur um arkitektúr og bækur í hinni merku röð Lærdómsrit Bókmenntafélagsins sem nú eru orðin tæplega 100 talsins. Félagið hefur einnig gefið út tímaritið Skírni frá 1827. Sverrir hefur tekið að sér ótal trúnaðar- og félagsstörf. Hann sat í stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda í allmörg ár og var fulltrúi útgefenda í stjórn Þýðingarsjóðs um tveggja ára skeið. Hann var formaður stjórnar Þjóðskjalasafns Íslands frá 1985-89 og 1993-1997.  Hann hefur verið ástríðufullur safnari myndlistar og fágætra bóka um langt skeið og aflað sér yfirgripsmikillar þekkingar á því sviði. Þess má geta að á þessu áru eru liðin 50 ár frá því að Sverrir gaf út fyrstu bók sína, Hátíðarljóð 1968, en hún tengdist 50 ára afmæli fullveldis Íslands.

Björn Eiríksson bókaútgefandi sem lengst af var kenndur við Bókaútgáfuna Skjaldborg lést 23. janúar sl. á Líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Heiðurstilnefningunni hafði Björn sjálfur veitt viðtöku fyrir andlátið en hans var sérstaklega minnst á aðalfundinum. Björn keypti í félagi við aðra bæði prentsmiðju Björns Jónssonar og bókaútgáfuna Skjaldborg á Akureyri árið 1975 og voru fyrirtækin rekin samhliða. Um tíma rak hann einnig Bókaverzlunina Eddu á Akureyri. Björn flutti ásamt fjölskyldu sinni til Reykjavíkur árið 1986 og starfsemi Skjaldborgar með honum, en þá hafði hann keypt hlut viðskiptafélaga sinna. Björn var umsvifamikill útgefandi á starfsferlinum sem hann sinnti af elju og hugsjón allt til dauðadags. Hann gaf út minnisstæð ritverk og margskonar bækur um þjóðlegan fróðleik. Meðal bóka sem hann gaf út eru Miðilshendur Einars á Einarsstöðum, bókaflokkurinn Aldnir hafa orðið, Göngur og réttir, Samræður við Guð, bækur Mary Higgins Clark, verk eftir David Attenbourgh. Þá gaf hann einnig út fjölmargar barnabækur, svo sem bækurnar um Bert og Depil auk þess sem hann lagði áherslu á útgáfu vandaðra ritverka og fræðibóka fyrir börn. Björn starfaði við bókaútgáfu allt til dauðadags en síðustu bækurnar sem hann gaf út komu út á síðasta ári. Björn sat í stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda í yfir 20 ár og lét að sér kveða í ýmsum baráttumálum félagsins.

Á aðalfundinum urðu einnig formannsskipti í félaginu. Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, lét af formennsku eftir 5 ára starf en við tók Heiðar Ingi Svansson, framkvæmdastjóri hjá IÐNÚ útgáfu, sem hefur verið varaformaður alla formannstíð Egils Arnar.

<<  1 2 3 4 [56 7 8 9  >>