Mar01

Yfirlýsing frá Félagi íslenskra bókaútgefenda og systurfélögum á Norðurlöndum

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Yfirlýsing frá Félagi íslenskra bókaútgefenda og systurfélögum á Norðurlöndum

“The Danish Publishers Association, The Finnish Publishers Association, the Icelandic Publishers Association, the Norwegian Publishers Association and the Swedish Publishers Association condemn Russia’s attack on Ukraine. We are appalled by the aggressions that are brought upon Ukraine and the people of Ukraine by the Russian government.  

As members of the European publishing community, we strongly support the statement issued by the Federation of European Publishers. We stand in solidarity with the people of Ukraine and all of our fellow Ukrainian colleagues in publishing; with the authors, translators, booksellers, and librarians – also in their fight for the freedom to publish."

 

Jan21

Afhending Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Afhending Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021

Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson, afhenti í dag, þriðjudaginn 25. janúar, Íslensku bókmenntaverðlaunin 2021, við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess er verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens; opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.

Verðlaunin skiptust í þrjá flokka og þeir sem að þessu sinni hlutu verðlaunin voru:

Fræðibækur og rit almenns efnis:

Sigrún Helgadóttir fyrir bókina Sigurður Þórarinsson : Mynd af manni I-II. Útgefandi: Náttúruminjasafn Íslands

Umsögn lokadómnefndar:

Að baki ævisögu Sigurðar Þórarinssonar liggja fjölmörg viðtöl og áralöng heimildavinna Sigrúnar Helgadóttur í dagbókum, bréfum og gögnum um ævi mannsins sem varð andlit jarðvísinda og náttúruverndar hér á landi á 20. öld; eins konar frummynd hins lífsglaða íslenska náttúrufræðings með brennandi áhuga á sögu og menningu.

Í þessari lipru, aðgengilegu og skemmtilegu frásögn er fylgst með þróun íslensks samfélags í átt til nútímans; efnilega föðurlausa sveitadrengnum sem kemst til mennta með hjálp góðra karla og kvenna, næmur, listrænn og skemmtinn, jafnvígur á hug- og raunvísindi en kýs að leggja fyrir sig jarðfræði og verður forystumaður í þeirri grein hér á landi um leið og hann kemst í fremstu röð á heimsvísu. Höfundur heldur öllum þráðum þessa farsæla ferils í hendi sér, kryddar hann léttilega með fjörlegum frásögnum sem varpa skýru en um leið marglitu ljósi á Sigurð; lesandinn kemst í návígi við hann frá degi til dags en fær um leið góða tilfinningu fyrir þeirri miklu braut sem hann ryður með rannsóknum sínum og kennslu í jarðvísindum og ekki síður afskiptum af almennri náttúruvernd og stjórnmálum. Ljósmyndir Sigurðar sjálfs leika stórt hlutverk í því hve vel tekst til og ekki síður sú natni og hugmyndaauðgi sem liggur að baki umbrotinu á hverri opnu.

Áherslan er á þá helgun sem fylgdi opinberum störfum Sigurðar en verkinu lýkur á fallegri og afhjúpandi mynd af fjölskyldumanninum Sigurði sem var karl síns tíma með sterka konu, Ingu V. Backlund, sér að baki – og börn sem minnast þess að hafa helst náð að tala við pabba sinn þar sem hann sat við skrifborðið í stofunni heima. Sigrún hlífir Sigurði ekki, hún gerir grín og dáist að honum, en sýnir okkur jafnframt hvernig vísindamaður verður til og mótast af stóratburðum síðustu aldar, styrjöldum, jarðskjálftum, jökulhlaupum og eldgosum.

Barna- og ungmennabækur:

Þórunn Rakel Gylfadóttir fyrir bókina Akam, ég og Annika. Útgefandi: Angústúra

Umsögn lokadómnefndar:

Fyrsta skáldsaga Þórunnar Rakelar grípur lesandann strax. Hún er vel skrifuð, skemmtileg og spennandi allt til loka, höfðar bæði til unglinga og þeirra sem eldri eru. Galdurinn liggur í næmri persónusköpun og því hvernig sýn á einstaklinga í sömu fjölskyldu er byggð upp út frá sjónarhorni Hrafnhildar, unglingsstúlku fráskilinna foreldra.

Hrafnhildur flyst þvert gegn vilja sínum til Þýskalands með móður sinni og nýjum manni hennar. Lesandi fylgist með innri rödd unglingsins en sér hana jafnframt í þrúgandi spenntu sambandi við móður sína, sem einkennist af ákaflega trúverðugri og vel byggðri togstreitu á milli þess innra og ytra – þannig að úr verður heilsteypt og margbrotin lýsing á veruleika íslensks unglings. Sama listfengi og margræðni einkennir samskipti Hrafnhildar við gamla og nýja vini, af ólíkum kynjum, aldri og uppruna. Á öllum stigum er unnið með þversagnir í framkomu og lífi fólks, útlit og innri maður vegast á þannig að ekkert er einhlítt í því hvernig við skynjum umhverfi okkar. Allt er litað af fyrirframhugmyndum hvers konar; fullorðnir átta sig ekki á börnum sem eru sjálf ekki barnanna best þegar kemur að einelti, kúgun og ofbeldi. Inn í þessa vel heppnuðu persónusköpun er fléttuð fjölbreytt umræða um vald, spillingu, réttlæti og náttúruvernd, leitina að sannleikanum (sem getur orkað tvímælis líkt og í leikritum Ibsens) og fordóma sem tengjast þjóðerni, uppruna og trúarbrögðum. Þessi umræða fellur svo vel að sögunni að hún dregur ekki úr drifkraftinum eða forvitni lesandans að kynnast þeim sem eru leidd fram á sviðið og fá öll að njóta sín, hver á sínum forsendum.

Akam, ég og Annika er trúverðug og spennandi saga með eftirminnilegum persónum sem fanga ákveðinn kjarna í samskiptum fólks.

Skáldverk:

Hallgrímur Helgason fyrir bókina Sextíu kíló af kjaftshöggum. Útgefandi: JPV útgáfa

Umsögn lokadómnefndar:

Skáldsaga Hallgríms Helgasonar er stór í sniðum, kraftmikil og hugmyndarík, skrifuð af kjarnyrtum og frumlegum þrótti með skoplegri og ýktri sýn á harmræna atburði þar sem lífshættan og dauðinn bíða við hvert fótmál. Sögusviðið er upphaf síldarævintýrisins í litlu íslensku þorpi við ysta haf á fyrstu áratugum síðustu aldar og viðfangsefnið er fæðing nútímans í íslensku samfélagi, þegar erlendir athafnamenn og tækninýjungar bárust inn í kyrrstætt sveitasamfélagið sem sagan rekur um kynslóðirnar allt aftur úr harðbýlum torfhreysum á hjara veraldar inn í þá mannlífshringiðu sem skapaðist í kringum gróðavon og síldveiðar Norðmanna hér við land. Vinnuharka, grimmd og vægðarleysi eru dregin fram í daglegu basli fólks, ástum þess og örlögum.

Sjónarhornið er að mestu bundið við ungkarlinn Gest sem er leiksoppur ytri atburða en persónur eru engu að síður fjölbreyttar, af ólíkum uppruna og þjóðfélagsstigum, og teiknaðar skýrum en margradda dráttum þannig að þær birtast lesanda ljóslifandi og eftirminnilegar, hver með sín sérkenni. Breyskleiki þeirra og göfuglyndi blasa við, hið lága vellur fram með öllum líkamsvessum og sora á bak við síldartunnur, í myrkum torfskúmaskotum og dýpstu skipslest um leið og persónur njóta fagurra og forboðinna ásta, lista og menningar í betri stofum, og þeirra forréttinda og þæginda sem auður og friðsæld geta gefið.

Sagan er drifin áfram af tilfinningum og innri átökum Gests, ástum hans og fjölskylduharmi en bakgrunnurinn er sögulegir viðburðir og persónur sem minna á Siglufjörð. Sextíu kíló af kjaftshöggum er metnaðarfull skáldsaga sem tekst á við mannlega tilveru þar sem hlutskipti einstaklinga ræðst af uppruna og ytri aðstæðum í bland við gæfu og gjörvileik.

Jan20

Bókamarkaðurinn á Laugardalsvelli

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

24. febrúar - 13. mars 2022

Bókamarkaðurinn á Laugardalsvelli

Bókamarkaðurinn á Laugardalsvelli verður haldinn dagana 24. febrúar – 13. mars nk.

Tekið er á móti skráningu bóka á markaðinn á netfangið bryndis@fibut.is fram til 1. febrúar.

Dec06

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021

Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021 voru kynntar 1. desember kl. 17 á Kjarvalsstöðum.

Íslensku bókmenntaverðlaunin 2021 verða afhent um mánaðamótin janúar-febrúar á komandi ári af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Formenn dómnefndanna þriggja, Andri Yrkill Valsson, Hanna Steinunn Þorleifsdóttir og Ragna Gestsdóttir munu koma saman ásamt forsetaskipuðum formanni, Gísla Sigurðssyni og velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk. Félag íslenskra bókaútgefenda kostar verðlaunin.

 

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:

 

Guðrún Ása Grímsdóttir - Sturlunga saga eða Íslendinga sagan mikla I-III

Útgefandi: Hið íslenzka fornritafélag

Sturlunga er samtímaheimild um örlagaríka ófriðartíma í sögu Íslands (1117-1264). Skinnhandritin tvö frá 14. öld eru skert og því er til viðbótar stuðst við yngri eftirrit í nýrri útgáfu Sturlungu sem Guðrún Ása Grímsdóttir hefur séð um. Vandvirkni og fræðileg úttekt hennar gerir lesendum nútímans unnt að njóta hins forna rits í hvívetna. Sagnasafnið Sturlunga inniheldur m.a. einn fjársjóða 13. aldar sem er Íslendinga saga Sturlu Þórðarsonar. Fróðleg og spennandi lesning.

 

Kristjana Vigdís Ingvadóttir - Þrautseigja og mikilvægi íslenskrar tungu : Um notkun dönsku og erlend áhrif á íslensku

Útgefandi: Sögufélag

Höfundur leitar svara við nokkrum spurningum, m.a. hversu víðtæk var notkun dönskunnar á 18. og 19. öld á Íslandi, hvar bar hana helst niður og hvers vegna ekki var skipt yfir í dönsku eins og rektor einn lagði til? Höfundur setur frumrannsókn sína í samhengi við fyrri rannsóknir fræðimanna á einstaklega skipulegan og ferskan hátt. Virðing Dana fyrir menningararfi Íslendinga kemur ef til vill einna helst á óvart. Í lok bókar spyrðir höfundur áhyggjum fyrri alda varðandi íslenskt mál saman við þær sem tilheyra deginum í dag. Hressandi lesning.

 

Sigrún Helgadóttir - Sigurður Þórarinsson : Mynd af manni I-II

Útgefandi: Náttúruminjasafn Íslands

Allt við þetta mikla ritverk hrífur, efnistök við ritun sögu Sigurðar Þórarinssonar og sjálft bókverkið, sem er markvisst og fagurlega myndskreytt. Rannsóknir vítt og breitt um landið, eldgos, jöklar, jarðlög, náttúruvernd, söngtextar og önnur áhugamál vísindamannsins sindra á hverri blaðsíðu.

 

Snorri Baldursson - Vatnajökulsþjóðgarður: Gersemi á heimsvísu

Útgefandi: JPV útgáfa

Lesandinn verður margs fróðari um jökla- og jarðfræði, lífríki og mikilfenglegar náttúruminjar svæðisins og verndun þess. Megintexti, kort, skýringarmyndir og ljósmyndir gefa margbreytilega mynd af viðfangsefninu. Höfundur leiðir lesandann í gegnum sérstöðu Vatnajökulsþjóðgarðs á skýran og fróðlegan hátt með fallegu myndefni. Hrífandi falleg bók.

 

Þórunn Jarla Valdimarsdóttir  - Bærinn brennur : Síðasta aftakan á Íslandi

Útgefandi: JPV útgáfa

Leiftrandi nærgætin frásögn upp úr bestu heimildum varpar nýju ljósi á aðdraganda og eftirmál hryllilegra atburða er gerðust í byrjun 19. aldar. „Mörg er angistin í nærmynd þessarar sögu“ lýsir vel upplifun við lestur bókarinnar. Lesandinn fær að fylgja höfundi um heimildir og finnur sig fljótt uggandi við túnfótinn.

 

Dómnefnd skipuðu:

Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, formaður dómnefndar, Katrín Ólöf Einarsdóttir og Ingi Bogi Bogason.

 

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki barna- og ungmennabóka:

 

Arndís Þórarinsdóttir - Bál tímans : Örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár

Myndhöfundur: Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson 

Útgefandi: Mál og menning

Óvæntur sögumaður tekur lesanda með í fróðlegt ferðalag. Myndir gæða bókina miklu lífi og auka lestraránægjuna. Bókin segir frá helsta fjársjóði íslenskra bókmennta á nýstárlegan hátt og kynnir handritin fyrir ungum lesendum.

 

Guðlaug Jónsdóttir og Hlíf Una Bárudóttir myndhöfundur - Í huganum heim

Útgefandi: Guðlaug Jónsdóttir og Karl K. Ásgeirsson

Hugljúf, raunsæ og hversdagsleg frásögn af sveitalífi fyrri tíma. Gullfallegar myndir prýða frumraun höfundar og gera söguna ljóslifandi þannig að nánast megi bragða á matnum eða ganga inn í herbergi og leika sér.

 

Jakob Ómarsson - Ferðalagið : styrkleikabók

Útgefandi: Af öllu hjarta

Bókin er skemmtileg lesning og hvetur til aukins tilfinningaþroska. Aukaefni fylgir bókinni sem útskýrir efni hennar og nýtist við lesturinn. Framsetning bókarinnar gerir hana að einstakri frumraun.

 

Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir myndhöfundur - Reykjavík barnanna

Útgefandi: Iðunn

Bókin fetar troðnar slóðir, sögusviðið er stórt og mikið og spannar fjölda ára. Fallegar myndskreytingar gera bókina aðgengilega lesendum á öllum aldri svo úr verður fræðandi og skemmtileg heimild um höfuðborgina okkar.

 

Þórunn Rakel Gylfadóttir - Akam, ég og Annika

Útgefandi: Angústúra

Bókin er margræð þroskasaga um margbreytileika mannlífsins og erfiðleika sem fylgja því að vaxa úr grasi. Bókin kemur inn á mörg samfélagsleg málefni og vekur lesendur til umhugsunar um hvort við viljum grípa til aðgerða eða vera hlutlaus áhorfandi. Frábær frumraun höfundar sem verður spennandi að fylgjast með í framtíðinni.

 

Dómnefnd skipuðu:

Ragna Gestsdóttir, formaður dómnefndar, Stefán Rafn Stefánsson og Vignir Árnason

 

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki skáldverka:

 

Arnaldur Indriðason - Sigurverkið

Útgefandi: Vaka Helgafell

Höfundur slær hér nýjan tón frá fyrri verkum með sögulegri skáldsögu þar sem persónur úr íslenskum og dönskum veruleika fyrri alda leiða söguna áfram. Harmræn örlagasaga, skrifuð af viðkvæmni og virðingu fyrir sögupersónunum, í fallegum og grípandi texta sem vekur samkennd og sterkar tilfinningar lesenda.

 

Guðni Elísson - Ljósgildran

Útgefandi: Lesstofan

Marglaga og margslungið skáldverk sem er allt í senn, sársaukafullt tregaljóð, skúrkasaga, samtímasaga, ádeila á verðmætamat samfélagsins og karnivalísk afbygging þar sem furðuverur varpa ljósi á valdakerfi samtímans. Úthugsuð uppbygging sem er reglulega sprengd upp - þegar textinn flæðir yfir mörk alls þess sem hingað til hefur skilgreint skáldsögur. Tímamótaverk þar sem bókstaflega allt er undir.

 

Hallgrímur Helgason - Sextíu kíló af kjaftshöggum

Útgefandi: JPV útgáfa

Styrkleikar höfundar mætast í glitrandi og kjarnyrtri veröld síldarplansins, þar sem fyrstu skref þjóðar úr torfkofunum speglast í þrá aðalsöguhetjunnar eftir betra lífi og sjálfstæði. Síldarvals þar sem húmor og harmur koma saman í miskunnarlausri framrás tímans. Líður alls ekki fyrir að vera sjálfstætt framhald verðlaunaverks, heldur stendur fullkomlega á eigin fótum.

 

Kamilla Einarsdóttir - Tilfinningar eru fyrir aumingja

Útgefandi: Veröld

Leit hinnar femínísku andhetju að sjálfsmynd, í misvondum ástarsamböndum, ýmsum hlutverkum í vinahópnum, á botni bjórflösku og í þungarokkshljómsveit snemm miðaldra skólafélaga sem kunna ekki á hljóðfæri. Sterk samtímasaga þar sem ískaldri kaldhæðni og depurð er fléttað saman í hressilegum texta, sem er skrifaður af viðkvæmni og væntumþykju.

 

Svikaskáld : Fríða Ísberg, Melkorka Ólafsdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Sunna Dís Másdóttir, Þóra Hjörleifsdóttir og Þórdís Helgadóttir - Olía

Útgefandi: Mál og menning

Hressandi frásögn af uppreisn sex kvenna gegn hefðbundnum kynhlutverkum. Grípandi ádeila á viðjar vanans og tilraunir til að brjótast undan hlekkjum hugarfars feðraveldisins. Verkið er óvenjulegt að því leytinu að hér taka sex höfundar sig saman um að segja eina sögu frá sjónarhóli sex kvenna sem tengjast þó innbyrðis með mismiklum hætti. Þrátt fyrir mismunandi stíla og ólíkar raddir höfunda verður úr sterk samfelld frásögn þar sem samtímamálefni eru til umfjöllunar.

 

Dómnefnd skipuðu:

Andri Yrkill Valsson, formaður dómnefndar, Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir og Jón Svanur Jóhannsson

Nov17

Bókatíðindi 2021 og nýr Bókatíðindavefur

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Dreifing Bókatíðinda stendur nú yfir til þeirra sem ekki afþakka fjölpóst.
Þeir sem ekki fá prentuðu útgáfuna geta skoðað nýjan Bókatíðindavef hér;
Einnig má hlaða niður PDF af prentuðu útgáfunni til lestrar hér; https://cdn.bokatidindi.is/images/bokatindi2021.pdf

 

Sep28

Skráningu í Bókatíðindi lýkur 12. október

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Skráningu í Bókatíðindi lýkur 12. október

Móttaka kynninga í Bókatíðindi stendur fram til 12. október. Verð á kynningu er kr. 28.768 m. vsk. Bókatíðindum verður dreift um miðjan nóvember auk þess sem von er á nýrri og endurbættri rafrænni útgáfu. Nánari upplýsingar á fibut@fibut.is

Sep28

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Opið fyrir framlagningu nýrra bóka til 12. október

Íslensku bókmenntaverðlaunin

Bókum sem útgefendur óska að leggja fram vegna tilnefninga til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2021 þarf að skila sem fyrst til skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda og eigi síðar en fyrir lok október nk.  Gjald fyrir framlagðar bækur er 35.000 kr.

 Við tilnefningu skal tekið fram hvort um er að ræða;

  1. Frumsamið íslenskt skáldverk, laust mál eða ljóð, fyrir fullorðna.
  2. Annað íslenskt ritverk, fræðirit, frásagnir, handbækur fyrir fullorðna.
  3. Frumsamið íslenskt verk fyrir börn og ungmenni.

Verðlaunin eru kr. 1.000.000,- (ein milljón)  fyrir hvern flokk.

Hægt er að tilkynna þátttöku fram til 12. október. Nánari upplýsingar á fibut@fibut.is

 

Sep28

Fjöruverðlaunin auglýsa eftir tilnefningum í ár

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Hægt er að leggja fram bækur eftir konur (sís og trans), trans fólk, kynsegin fólk og intersex fólk

Fjöruverðlaunin auglýsa eftir tilnefningum í ár

Nú stendur yfir móttaka framlagðra bóka til Fjöruverðlaunanna. Aðeins bækur/handrit sem hafa borist fyrir 29. október koma til greina. Þátttökukostnaður er ókeypis, en þremur eintökum þarf að skila inn fyrir dómnefnd.

Hægt er að tilnefna bækur í þremur flokkum:

  • fagurbókmenntir
  • fræðirit og bækur almenns eðlis
  • barna- og unglingabókmenntir

Dómnefndarbókum skal komið til Bryndísar á skrifstofu Félags íslenskra bókaútgefenda í allra síðasta lagi föstudaginn 29. október 2021. Ef ekki er unnt að koma prentuðum bókum til skila fyrir þann tíma, er nauðsynlegt að senda rafrænt eintak á  bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com fyrir þann dag, svo að bókin komi til greina. Þá þurfa útgefendur að koma þremur prentuðum eintökum af sömu bók á skrifstofu FÍBÚT fyrir föstudaginn 19. nóvember 2021.

Þrjár bækur eru tilnefndar í hverjum flokki og verða tilnefningar kynntar í desember 2021. Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi, verða svo veitt 8. mars 2022.

Hvaða bækur koma til greina?

Miðað er við að til að bækur teljist hæfar til að vera í Fjöruverðlaunapottinum séu þær:

  • skrifaðar af konu/konum, trans fólki, kynsegin fólki eða intersex fólki
  • frumútgáfa sé á íslensku
  • gefnar út af forlagi á Íslandi
  • koma út í fyrsta sinn á því ári sem um ræðir (ekki endurútgáfur)
  • innihaldi texta af einhverju tagi
  • að kona/konur eða trans/kynsegin/intersex fólk eigi a.m.k. 50% af textanum í bókinni, eða að kona/konur eða eða trans/kynsegin/intersex fólk séu helmingur höfunda (ef margir)
  • Ef upp koma vafaatriði er það hverrar dómnefndar fyrir sig að vega og meta hvort umrædd bók skuli talin gjaldgeng eða ekki.

Nánari upplýsingar veitir stjórn Fjöruverðlaunanna í netfanginu bokmenntaverdlaunkvenna@gmail.com.

Sep01

Vilt þú starfa í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna?

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Vilt þú starfa í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna?

Við leitum eftir einstaklingum á ólíkum aldri, með fjölbreyttan bakgrunn og menntun, til þess að velja athyglisverðustu bækur ársins í dómnefnd Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Laun fyrir nefndarsetu eru kr. 125.000 auk þess sem nefndarmeðlimir fá allar framlagðar bækur í sínum flokki til eignar. Starfstímabilið er frá 20. september til 30. nóvember 2021.

Þrjár dómnefndir starfa fyrir verðlaunin, hver skipuð þremur nefndarmönnum. Hægt er sækja um eina eða fleiri nefnd. Dómnefndir skiptast eins og verðlaunin í barna- og ungmennabækur, skáldverk og fræðirit og bækur almenns efnis.

Horft er til 2. kafla, 3. gr. stjórnsýslulaga varðandi hæfi dómnefndarfólks sem tengist höfundum eða útgefendum framlagðra verka, sjá; https://www.althingi.is/lagas/nuna/1993037.html

Áhugasamir lesendur eru beðnir um að skrá sig hér: https://forms.gle/WzBZBcTWAfQ5hVzt5

Tekið er á móti skráningum til og með 8. september.

Feb18

Aðalfundur Félags íslenskra bókaútgefenda

Höfundur Félag íslenskra bókaútgefenda

Aðalfundur Félags íslenskra bókaútgefenda

Aðalfundur Félags íslenskra bókaútgefenda fór fram fimmtudaginn 11. febrúar síðast liðinn. Vegna aðstæðna hittust félagsmenn á fjarfundi í þetta sinn.

Heiðar Ingi Svansson var sjálfkjörinn formaður stjórnar félagsins en hann hefur gegnt formennsku frá árinu 2018. Þá varð sú breyting á stjórn félagsins að Ólöf Dagný Óskarsdóttir ákvað að hverfa úr stjórn. Í stað hennar var Jakob F. Ásgeirsson sjálfkjörinn. Félagið kann Ólöfu bestu þakkir fyrir stjórnarsetuna á liðnum árum.

Í stjórn félagsins sitja nú eftirfarandi útgefendur; Anna Lea Friðriksdóttir, Anna Margrét Marinósdóttir, Birgitta Elín Hassell, Egill Örn Jóhannsson, Guðrún Vilmundardóttir, Jakob F. Ásgeirsson, Jónas Sigurgeirsson, María Rán Guðjónsdóttir, Pétur Már Ólafsson og Stefán Hjörleifsson auk formanns stjórnar, Heiðars Inga Svanssonar.

<<  1 [23 4 5 6  >>